Skip to content

Fullveldi.is

VEFSETUR UM UTANRÍKIS- OG VARNARMÁL

Menu
  • Forsíða
  • Greinar
    • EES-samningurinn
      • Bókun 35
    • Evrópumál
    • Fríverzlun
    • Schengen
    • Stjórnarskrármál
    • Varnarmál
  • Skýrslur
  • Hlaðvarp
  • Fullveldi.is
  • English
Menu

„Þið vitið fullkomlega hvað er í pakkanum“

Posted on May 29, 2023 by Fullveldi

„Vitanlega er Evr­ópusambandið ekki lokaður pakki. Þið vitið hvað þið væruð að fara út í. Og ef þið eruð ekki reiðubúin til þess, haldið ykkur þá fyrir utan sambandið. Það er það bezta sem þið getið gert,“ sagði Uffe-Ellemann heitinn Jensen, fyrrverandi utanríkisráðherra Danmerkur, í viðtali við mbl.is í marz 2017 en hann var mikill stuðningsmaður þess að Ísland gengi í Evrópusambandið og þekkti vel til umræðunnar hér á landi. Spurður út í þann málflutning skoðanasystkina sinna hér á landi að sækja þyrfti um inngöngu í sambandið til þess að „kíkja í pakkann“ sagði hann einfaldlega: „Þið vitið fullkomlega hvað er í pakkanum.“

Hið ágætasta tilefni til þess að rifja upp þessi orð Jensens, sem var á sínum tíma leiðtogi danska flokksins Venstre, systurflokks Viðreisnar, kom með grein Guðbrands Einarssonar, þingmanns Viðreisnar, á Vísir.is fyrir helgi þar sem hann dustaði rykið af frasanum um það að kíkja þyrfti í pakkann. Sagði hann þannig að hefja þyrfti umsókarferli að Evrópusambandinu „til þess að við fáum að sjá hvað er í pakkanum í raun og veru.“ Á sama tíma situr Guðbrandur á þingi fyrir stjórnmálaflokk sem hefur einfaldlega þá stefnu að Ísland eigi að ganga í sambandið án nokkurs fyrirvara um það hvað slík innganga hefði í för með sér.

Spil Evrópusambandsins þegar á borðinu

Fulltrúar Evrópusambandsins sjálfs eru á meðal þeirra sem hafnað hafa þessum málflutningi íslenzkra Evrópusambandssinna. Þannig sagði til að mynda Olli Rehn, þáverandi stækkunarstjóri sambandsins, í samtali við Morgunblaðið 10. september 2009, spurður hvort spilin yrðu loks lögð á borðið af hálfu þess og upplýst hvað væri í boði eftir að þáverandi ríkisstjórn Samfylkingarinnar og Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs hafði sótt um inngöngu í sambandið: „Ef ég nota myndlíkingu þína þá eru spil Evrópusambandsins þegar á borðinu, fyrir allra augum. Það er að segja regluverk sambandsins og meginreglur þess.“

Fullyrðing Guðbrands um að í boði sé að hefja umsóknarferli að Evrópusambandinu án þess að ætlunin sé að ganga þar inn, með vísan til þess að Norðmenn hafi í tvígang hafnað inngöngu, stenzt að sama skapi ekki skoðun. Þannig hafa fulltrúar sambandsins sjálfs lýst því yfir að slíkt sé ekki í boði líkt og til að mynda Štefan Füle, arftaki Rehns, gerði á fundi utanríkismálanefndar Alþingis í október 2011. Hið sama kemur efnislega víða fram í gögnum frá Evrópusambandinu. Þá fóru Norðmenn einungis í einfaldar viðræður við sambandið en ekki það viðamikla og áralanga ferli sem ríki fara í gegnum í dag og snýst fyrst og fremst um aðlögun.

Valdið yfir sjávarútvegsmálunum til ESB

Fram kemur í grein Guðbrands að regla Evrópusambandsins um hlutfallslega stöðugar veiðar ætti að tryggja sjávarútvegshagsmuni Íslands kæmi til inngöngu í sambandið. Raunin er hins vegar sú að umrædd regla á sér enga stoð í Lissabon-sáttmála Evrópusambandsins, hún breytir engu um það að valdið yfir íslenzkum sjávarútvegsmálum færðist til sambandsins í samræmi við ákvæði hans, komið hefur ítrekað fram í gögnum þess að reglan sé ekki hugsuð sem varanlegt fyrirkomulag, hún hefur sætt vaxandi gagnrýni og hæglega mætti breyta henni eða afnema hana án samþykkis Íslands þó landið væri þar innanborðs.

Varðandi landbúnað vildi þingmaðurinn meina að svonefndur heimsskautalandbúnaður myndi tryggja að íslenzkir bændur nytu sömu styrkja og áður ef Ísland gengi í Evrópusambandið. Með fyrirkomulaginu er stjórnvöldum í Finnlandi og Svíþjóð heimilað að greiða bændum norðan 62. breiddargráðu styrki til viðbótar styrkjum sambandsins. Hámark er í þeim efnum en ekkert lágmark og ákveður Evrópusambandið öll skilyrði fyrir viðbótarstyrkjunum. Fyrir vikið gætu þeir hæglega fallið á brott með breyttri stefnu sambandsins og löggjöf í landbúnaðarmálum. Til þess þyrfti að sama skapi ekki samþykki Íslands.

Vægi ríkja ESB tekur mið af íbúafjölda

Mikilvægt er að hafa í huga í þessu sambandi að vægi ríkja innan Evrópusambandsins, og þar með möguleikar þeirra á því að hafa áhrif á ákvarðanir á vettvangi sambandsins, fer fyrst og fremst eftir íbúafjölda þeirra. Því fámennari sem ríkin eru því minni möguleika eiga þau almennt á því að hafa áhrif á ákvarðanatöku stofnana Evrópusambandsins þar sem þau eiga fulltrúa. Kæmi til inngöngu Íslands í sambandið yrði landið fámennasta ríki þess og með vægi í samræmi við það. Þannig yrði vægi Íslands í ráðherraráði Evrópusambandsins 0,08% og á þingi sambandsins yrði staða landsins á við það að hafa hálfan þingmann á Alþingi.

Við þetta bætist að einróma samþykki ríkja Evrópusambandsins heyrir til algerra undantekninga í dag. Telja má þannig nánast á fingrum annarrar handar þá málaflokka þar sem það á enn við. Þar á meðal eru hvorki orkumál né sjávarútvegsmál og það sama á við um landbúnaðarmál. Vald Evrópusambandsins yfir þessum málaflokkum og flestum öðrum málefnum ríkja þess er niðurneglt í Lissabon-sáttmálanum (2.-4. gr. TFEU). Langflestar ákvarðanir í ráðherraráði Evrópusambandsins þurfa einungis samþykki 55% ríkjanna með 65% íbúafjölda sambandsins að baki sér. Þar standa fámennustu ríkin vitanlega langverst að vígi.

Lýsti áhyggjum af ósamstíga ríkisstjórn

Forsenda þess að tekin verði skref í átt að inngöngu í Evrópusambandið er annars eðli málsins samkvæmt þingmeirihluti fyrir málinu, kjörinn af íslenzkum kjósendum, og ríkisstjórn samstíga um að það verði gert. Það er einnig mat sambandsins. Fulltrúar Evrópusambandsins lýstu þannig til að mynda ítrekað yfir áhyggjum sínum af því að ríkisstjórn Samfylkingarinnar og VG væri ekki samstíga gagnvart málinu. Til dæmis utanríkismálanefnd þings sambandsins í nóvember 2012: „Þing Evrópusambandsins ítrekar áhyggjur sínar af pólitískum ágreiningi innan ríkisstjórnarinnar og stjórnmálaflokkanna varðandi inngönguna í það“.

Væntanlega segir það sig sjálft að stjórnmálaflokkar, sem kosnir hafa verið úr á þá stefnu að taka ekki skref í átt að inngöngu í Evrópusambandið, geta ekki staðið að slíku nema með því að hafa að engu það sem þeir sögðu við kjósendur sína fyrir kosningar. Fullyrðingar um að háværri kröfu sé fyrir að fara um það að tekin verði skref í átt að inngöngu í sambandið á sama tíma og Viðreisn, eini flokkurinn sem leggur áherzlu á málið, mælist með vel innan við 10% fylgi standast vitanlega enga skoðun. Hvers vegna hefur stuðningur við Viðreisn ekki miklu meiri ef slíkri háværri kröfu er raunverulega fyrir að fara? Hvað er þá að flokknum?

Hjörtur J. Guðmundsson
sagnfræðingur og alþjóðastjórnmálafræðingur

(Greinin birtist áður á Vísir.is 29. maí 2023)

(Ljósmynd: Höfuðstöðvar framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins í Brussel. Eigandi: Hjörtur J. Guðmundsson)


Tengt efni:
Minnast ekki á lokamarkmiðið
Fátt bendir til norskrar inngöngu í ESB
Versnandi staða fámennari ríkja ESB
Málstaður sem skilar ekki auknu fylgi
Með hálfan þingmann á Alþingi

HELZTU GREINAR


Mýtan um sætið við borðið

Kæmi til þess að Ísland gengi í Evrópusambandið tæki vægi landsins fyrst og fremst mið af íbúafjölda þess. Til að mynda þegar teknar væru ákvarðanir varðandi sjávarútvegs- og orkumál sem skipta okkur Íslendinga miklu máli. Ekki sízt í ráðherraráði sambandsins sem gjarnan er skilgreint sem valdamesta stofnun þess. Vægi Íslands þar yrði þannig í langflestum tilfellum aðeins um 0,08% eða á við 5% hlut í alþingismanni.



Verður það sama gert aftur?

Formaður Sjálfstæðisflokksins, Bjarni Benediktsson, sagði í kappræðum formanna stjórnmálafokkanna á Stöð 2 á dögunum, aðspurður af Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni, formanni Miðflokksins, hvort til þess gæti komið að hann gæfi eitthvað eftir varðandi inngöngu í Evrópusambandið kæmi til ríkisstjórnarsamstarfs flokks hans við Viðreisn og Samfylkinguna eftir þingkosningarnar, að hann gæti ekki og myndi ekki taka þátt í ríkisstjórn sem berðist fyrir því að Ísland gengi í sambandið. Hann sæi engin rök fyrir inngöngu í það.



Vilja miklu stærra bákn

Mjög sérstakt er að sjá forystumenn Viðreisnar og aðra frambjóðendur flokksins gagnrýna umfang íslenzku stjórnsýslunnar og segjast vilja minnka báknið á sama tíma og helzta stefnumál flokksins, sem öll önnur stefnumál hans taka í raun mið af, er að Ísland gangi í Evrópusambandið sem telur stjórnsýsluna hér á landi þvert á móti allt of litla til þess að standa undir þeim skuldbindingum sem fylgja inngöngu í sambandið.



Fámennt ríki á jaðrinum

Versta staða sem ríki getur verið í innan Evrópusambandsins, þegar kemur að möguleikum á því að hafa áhrif á ákvarðanatökur innan þess, er að vera fámennt ríki á jaðri sambandsins. Kæmi til þess að Ísland gengi í Evrópusambandið yrði landið bæði það fámennasta innan sambandsins og á yzta jaðri þess.



Hegðaði sér eins og einræðisherra

„Ég vissi að ég gæti aldrei unnið þjóðaratkvæði hér í Þýzkalandi. Við hefðum tapað sérhverri atkvæðagreiðslu um evruna. Það er alveg ljóst,“ sagði Helmut Kohl, fyrrverandi kanzlari Þýzkalands, í samtali við þýzka blaðamanninn Jens Peter Paul árið 2002. Viðtalið er að finna í doktorsritgerð Pauls sem gerð var opinber um áratug síðar en Kohl gegndi kanzlaraembættinu þegar grunnur var lagður að Evrópusambandinu eins og við þekkjum það í dag og evrusvæðinu með Maastricht-sáttmálanum á tíunda áratug síðustu aldar.



Mjög skiljanleg umræða um EES

Vaxandi umræða um það hvort rétt sé fyrir okkur Íslendinga að vera áfram aðilar að EES-samningnum er afar skiljanleg þó Hanna Katrín Friðriksson, þingflokksformaður Viðreisnar, telji hana óskiljanlega samanber pistill hennar í Morgunblaðinu á dögunum þar sem hún hélt því enn fremur meðal annars fram að án samningsins færum við aftur í torfkofana. Eða eins og hún kaus að orða það: „Eins og það sé einhver glóra í því fyrir þjóð sem á allt sitt undir viðskiptum við önnur lönd að forða sér aftur inn í torfkofana.“



Varði ekki viðsnúninginn

Fróðlegur fundur var haldinn í húsakynnum okkar sjálfstæðismanna í Kópavogi á laugardaginn þar sem Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, utanríkisráðherra og varaformaður Sjálfstæðisflokksins, flutti erindi og sat síðan fyrir svörum. Meðal þeirra mála sem voru helzt til umræðu var frumvarp Þórdísar um bókun 35 við EES-samninginn sem mun þýða, nái það fram að ganga, að fest verði í lög að regluverk frá Evrópusambandinu sem innleitt hefur verið í gegnum samninginn gangi framar innlendri lagasetningu.



Við erum á allt öðrum stað

Verðbólga á evrusvæðinu náði hámarki í október 2022 miðað við samræmda vísitölu neyzluverðs á Evrópska efnahagssvæðinu og mældist þá 10,6%. Á sama tíma var verðbólga á Íslandi á sama mælikvarða 6,4%. Eftir það fór verðbólga á evrusvæðinu minnkandi en byrjaði ekki að minnka hér á landi fyrr en í febrúar 2023. Ástæðan er sú að verðbólgan hér hefur verið nokkrum mánuðum á eftir stöðu mála innan svæðisins. Verðbólgan fór með öðrum orðum fyrr upp á evrusvæðinu en hér á landi og fyrir vikið er hún seinni niður hér.



Treystandi fyrir stjórn landsins?

Formanni Viðreisnar, Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur, hefur orðið nokkuð tíðrætt á kjörtímabilinu um að það þurfi „einfaldlega að fara að stjórna þessu landi“ eins og hún til að mynda orðaði það í grein á Vísir.is fyrr á árinu. Þar beindi formaðurinn spjótum sínum að ríkisstjórninni sem sannarlega er hægt að gagnrýna fyrir ýmislegt. Hins vegar er vandséð að Þorgerði og flokki hennar væri betur treystandi fyrir stjórn landsins.

  • Með vægi í samræmi við það
  • Tölum endilega um staðreyndir
  • Skjól fyrir spillta stjórnmálamenn
  • Vilja Ísland í evrópskt sambandsríki
  • „Þetta er algerlega galið“
©2025 Fullveldi.is | Built using WordPress and Responsive Blogily theme by Superb