Skip to content

Fullveldi.is

VEFSETUR UM UTANRÍKIS- OG VARNARMÁL

Menu
  • Heim
  • Greinar
  • Skýrslur
  • Fullveldi.is
  • English
Menu

Fátt bendir til norskrar inngöngu í ESB

Posted on 09/05/202309/05/2023 by Fullveldi

Meirihluti Norðmanna hefur verið andvígur inngöngu í Evrópusambandið samkvæmt niðurstöðum allra skoðanakannana sem birtar hafa verið í Noregi frá því snemma árs 2005 eða samfellt í 18 ár. Miðað við niðurstöður þeirrar nýjustu, sem gerð var í apríl af Sentio fyrir norsku dagblöðin Nationen og Klassekampen, er rúmur helmingur Norðmanna mótfallinn inngöngu í sambandið en þriðjungur hlynntur.

Mjög ólíklegt er að ríkisstjórn hlynnt inngöngu í Evrópusambandið taki við völdum í Noregi í kjölfar næstu þingkosninga í landinu haustið 2025. Meðal annars þar sem tveir stærstu stjórnmálaflokkarnir, Hægriflokkurinn og Verkamannaflokkurinn, hafa ekki getað myndað ríkisstjórn vegna málefnaágreinings, þrátt fyrir að hafa báðir stutt inngöngu í sambandið, og fyrir vikið þurft að starfa með flokkum andvígum inngöngu.

Stefnubreyting Verkamannaflokksins

Við það bætist að stefna Verkamannaflokksins gagnvart Evrópusambandinu er talsvert breytt frá því sem áður var. Þannig er ekki lengur að finna í stefnuskrá flokksins afdráttarlausan stuðning við inngöngu í sambandið heldur segir þar einungis að hann sé hlynntur nánu pólitísku samstarfi við önnur Evrópuríki og hafi fyrir vikið stutt inngöngu í sambandið í þeim þjóðaratkvæðagreiðslum sem haldnar hafi verið um málið.

Hins vegar segir í framhaldi af þeim orðum í stefnuskránni að innan Verkmannaflokksins sé rými fyrir ólíkar skoðanir á því hvort rétt sé fyrir Noreg að ganga í Evrópusambandið og að innganga verði ekki sett á dagskrá nema fjallað hafi verið um málið á nýjum landsfundi. Megináherzlan er á aðild Noregs að EES-samningnum. Væntanlega meðal annars vegna vaxandi gagnrýni á hana þar í landi á undanförnum árum.

Meirihluti flokkanna hafnar inngöngu í ESB

Málið varðandi inngöngu í Evrópusambandið hefur lengi verið umdeilt innan Verkamannaflokksins og virk andstaða verið við það innan hans. Sú andstaða hefur farið vaxandi á liðnum árum sem haft hefur áhrif á stefnu flokksins. Verkamannaflokkurinn fer fyrir núverandi ríkisstjórn í samstarfið við Miðflokkinn og með stuðningi Sósíalíska vinstriflokksins en síðarnefndu flokkarnir tveir hafna inngöngu í sambandið.

Hægriflokkurinn er sem fyrr hlynntur því að Noregur gangi í Evrópusambandið en til þess að mynda ríkisstjórn þarf hann stuðning annarra hægriflokka. Þá einkum Framfaraflokksins og Kristilega þjóðarflokksins sem báðir hafna inngöngu. Fimm af þeim níu flokkum sem sæti eiga á norska Stórþinginu eru andvígir því að gengið verði í Evrópusambandið, þrír eru hlynntir því og Verkamannaflokkurinn skilar í raun auðu.

Sjaldan minni líkur á inngöngu Noregs

Framfaraflokkurinn var eitt sinn tvístígandi gagnvart inngöngu í Evrópusambandið en hefur nú um árabil verið henni andvígur. Mögulega á Verkamannaflokkurinn eftir að feta hliðstæða leið. Hvað Hægriflokkinn varðar benda kannanir til þess að kjósendur hans skiptist í tvær nokkuð jafnar fylkingar með og á móti inngöngu í sambandið. Enginn skortur er þannig á andstöðu við hana í röðum norskra hægrimanna.

Fátt bendir fyrir vikið til þess að Norðmenn séu á leiðinni í Evrópusambandið á komandi árum hvað sem líður mögulegri óskhyggju einhverra um annað og landsfundi Hægriflokksins á dögunum þar sem áratugagamalt ákall hans um inngöngu var ítrekað. Raunar má færa rök fyrir því að sjaldan ef nokkurn tímann hafi verið minni líkur á því að af henni verði, bæði með tilliti til afstöðu landsmanna og stjórnmálalandslagsins.

Hjörtur J. Guðmundsson
sagnfræðingur og alþjóðastjórnmálafræðingur

(Greinin birtist áður í Morgunblaðinu 9. maí 2023)

(Ljósmynd: Norskir fánar fyrir utan konungshöllina í Ósló, höfuðborg Noregs. Eigandi: Maxxii)


Tengt efni:
Versnandi staða fámennari ríkja ESB
Flotið vakandi að feigðarósi
Málstaður sem skilar ekki auknu fylgi
Með hálfan þingmann á Alþingi
Setur Viðreisn í vanda

HELZTU GREINAR


Meira en heildartekjur ríkissjóðs

Tryggðar innistæður í fjármálastofnunum á Íslandi námu 1.228 milljörðum króna um síðustu áramót samkvæmt upplýsingum frá Tryggingasjóði vegna fjármálafyrirtækja (TVF) og jukust þær um eitt hundrað milljarða á síðasta ári. Komi til þess að ný tilskipun Evrópusambandsins um innistæðutryggingar verði innleidd á Íslandi vegna EES-samningsins mun það að öllum líkindum þýða ríkisábyrgð á tryggðum innistæðum.



Versnandi staða fámennari ríkja ESB

Meðal þeirra breytinga sem orðið hafa á Evrópusambandinu á undanförnum árum er að vægi fámennari ríkja sambandsins við ákvarðanatökur í ráðherraráði þess hefur minnkað stórlega. Einkum þeirra fámennustu. Krafa um einróma samþykki í ráðinu heyrir þannig í raun til algerra undantekninga í dag ólíkt því sem áður var og þess í stað er miðað við meirihlutasamþykki þar sem vægi ríkjanna fer fyrst og fremst eftir því hversu fjölmenn þau eru. Hvort tveggja hefur eðli málsins samkvæmt komið sér verst fyrir fámennustu ríkin.



Minna svigrúm til viðskiptasamninga

Með aðild Íslands að EES-samningnum hefur regluverk frá Evrópusambandinu, sem tekið hefur verið upp í gegnum samninginn, skapað viðskiptahindranir gagnvart nánustu viðskiptalöndum landsins utan Evrópskra efnahagssvæðisins (EES) og stuðlað að minna svigrúmi EFTA-ríkjanna sem aðild eiga að samningnum, Íslands, Noregs og Liechtensteins, til þess að semja um viðskipti við ríki utan svæðisins.


Færslur

  • Vissulega lítið vit í slíkum samningi
  • Hver á að framkvæma stefnu Viðreisnar?
  • „Þið vitið fullkomlega hvað er í pakkanum“
  • Minnast ekki á lokamarkmiðið
  • Fátt bendir til norskrar inngöngu í ESB
  • Meira en heildartekjur ríkissjóðs
  • Þegar raunveruleikinn hentar ekki
  • Versnandi staða fámennari ríkja ESB
  • Minna svigrúm til viðskiptasamninga
  • Dvínandi eða vaxandi?
  • Dvínandi stuðningur við inngöngu í ESB
  • Flotið vakandi að feigðarósi
  • Tvennt hægt að gera við tillögurnar
  • Meginvandinn er sjálft regluverkið
  • Málstaður sem skilar ekki auknu fylgi
  • „Við værum í vandræðum án Bandaríkjanna“
  • Með hálfan þingmann á Alþingi
  • Frelsið til þess að ráða eigin málum
  • Hlutleysi veitir enga vörn
  • Verður ríkisábyrgð sett á þúsund milljarða?
©2023 Fullveldi.is | Built using WordPress and Responsive Blogily theme by Superb