Skip to content

Fullveldi.is

VEFSETUR UM UTANRÍKIS- OG VARNARMÁL

Menu
  • Heim
  • Fréttir
  • Greinar
  • Skýrslur
  • Fullveldi.is
  • English
Menu

Háð bæði Kína og Rússlandi

Posted on 04/09/202229/11/2022 by Fullveldi

Mikil aukning hefur orðið á innflutningi á fljótandi gasi til ríkja Evrópusambandsins frá Kína á þessu ári, eða sem nemur um 60% á fyrstu sex mánuðum ársins samkvæmt frétt viðskiptablaðsins Financial Times, á sama tíma og vaxandi þrýstingur hefur verið á sambandið að hætta kaupum á rússnesku gasi. Hafa háttsettir forystumenn Evrópusambandsins gengizt við því að sambandið hafi í raun fjármagnað hernað rússneskra stjórnvalda í Úkraínu með kaupum á rússneskri olíu og gasi um langt árabil sem enn sér ekki fyrir endann á.

Fram kemur í fréttinni að þetta þýði að eftir því sem Evrópusambandið fyllist meiri örvæntingu yfir því hvernig komið sé fyrir orkuöryggi þess muni kínversk stjórnvöld verða í sterkari stöðu til þess að taka ákvarðanir sem hafa muni áhrif á sambandið: „Samhliða því sem Evrópusambandið reynir að brjótast út úr þeirri stöðu að vera háð Rússlandi í orkumálum er kaldhæðnislegt að sambandið er að verða háðara Kína.“ Hins vegar er nær að segja að Evrópusambandið sé með þessu að færast yfir í það að verða háð bæði Rússlandi og Kína.

Mikil eftirspurn og verðið engin fyrirstaða

Taldar eru þannig allar líkur á því að stór hluti af gasinu, sem flutt hefur verið frá Kína til Evrópusambandsins, komi upphaflega frá Rússlandi en Kínverjar hafa sjálfir stóraukið innflutning á rússnesku gasi undanfarin misseri á hagstæðum kjörum. Ákvörðun kínverskra stjórnvalda í byrjun ársins, um að hætta að birtar opinberlega upplýsingar um uppruna gass sem flutt er frá Kína, þykir renna frekari stoðum undir það. Fyrir vikið er gasið einfaldlega skráð sem kínverskt og þannig er það að sama skapi fært til bókar hjá sambandinu.

Kína er sjálft á meðal þeirra ríkja sem framleiða mest af gasi í heiminum en einnig á meðal þeirra ríkja sem flytja mest inn af gasi. Vegna niðursveiflu í kínverska hagkerfinu á árinu hafa safnast fyrir umframbirgðir af gasi sem flutt hefur verið til landsins, ekki sízt frá Rússlandi, og sem fyrir vikið hafa verið seldar áfram. Þá einkum til Evrópusambandsins þar sem eftirspurnin er gríðarleg og verðið fyrir vikið engin fyrirstaða. Enda kemur fram í erlendum fjölmiðlum að rífleg álagning sé á gasinu frá Kína ofan á innkaupaverðið frá Rússlandi.

Farið úr öskunni í eldinn í orkuöryggismálum

Kaupin á gasi frá Kína hafa gert ríkjum Evrópusambandsins auðveldara fyrir en ella að safna gasbirgðum fyrir veturinn. Rússnesk stjórnvöld hafa dregið mjög úr flæði gass um gasleiðslur til Þýzkalands og fleiri ríkja sambandsins og stefnir fyrir vikið í mikinn skort innan þess í vetur. Taldar eru vaxandi líkur á því að Rússar muni innan tíðar skrúfa alfarið fyrir gasið sem aftur mun þýða, samkvæmt Financial Times, að ríki Evrópusambandsins munu þurfa að kaupa allt það gas sem þau mögulega geta óháð verði. Það muni þó ekki duga til.

Fyrir vikið er óhætt að segja að Evrópusambandið hafi farið úr öskunni í eldinn þegar kemur að orkuöryggi þess. Staða sambandsins var nógu slæm fyrir þegar það var einungis háð Rússlandi í orkumálum en er nú sem fyrr segir í vaxandi mæli orðið háð Kína líka. Fullyrðingar sumra, um að við Íslendingar þurfum að ganga í Evrópusambandið til þess að tryggja efnahagslegt öryggi okkar, verða að teljast í bezta falli broslegar í ljósi þess að sambandið hefur reynzt algerlega ófært um það að standa vörð um eigið efnahagslegt öryggi.

Hjörtur J. Guðmundsson
sagnfræðingur og alþjóðastjórnmálafræðingur

(Greinin birtist áður á Vísir.is 4. september 2022)

(Ljósmynd: Ursula von der Leyen, forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins. Eigandi: Ráðherraráð Evrópusambandsins)


Tengt efni:
Fjármagna áfram hernað Pútíns
Kuldinn sem fyrr bandamaður Rússlands
Milljarður evra til Pútíns á hverjum degi
Sjálfskaparvíti og dómgreindarleysi
Hernaður Pútíns fjármagnaður af ESB

HELZTU GREINAR


Meginvandinn er sjálft regluverkið

Talsvert hefur verið rætt á undanförnum árum um svonefnda gullhúðun við innleiðingu á lagagerðum frá Evrópusambandinu í gegnum aðild Íslands að EES-samningnum. Er þar vísað til þess þegar gerðir eru innleiddar hér á landi meira íþyngjandi en þær koma frá sambandinu. Um er að ræða mál sem full ástæða er til þess að taka föstum tökum en á sama tíma er ljóst að ekki er um að ræða meginvandann í þeim efnum.



Málstaður sem skilar ekki auknu fylgi

Fylgi Samfylkingarinnar hefur tvöfaldast frá þingkosningunum sem fram fóru fyrir rúmu ári síðan samkvæmt niðurstöðum skoðanakannana í kjölfar þess að nýr formaður, Kristrún Frostadóttir, tók við flokknum. Fylgið hefur þannig farið úr tæpum 10% í kosningunum í um 20%. Kannanir benda til þess að þar vegi þungt ákvörðun formannsins um það að setja stefnu flokksins um inngöngu í Evrópusambandið á ís.



Með hálfan þingmann á Alþingi

Vægi ríkja innan Evrópusambandsins, og þar með möguleikar þeirra á því að hafa áhrif innan sambandsins, fer fyrst og fremst eftir íbúafjölda þeirra. Því fámennari sem ríkin eru því minni möguleika eiga þau almennt á því að hafa áhrif á ákvarðanatöku stofnana Evrópusambandsins þar sem þau eiga fulltrúa. Kæmi til þess að Ísland gengi í sambandið yrði landið fámennasta ríki þess og með vægi í samræmi við það.


Færslur

  • Minna svigrúm til viðskiptasamninga
  • Dvínandi eða vaxandi?
  • Dvínandi stuðningur við inngöngu í ESB
  • Flotið vakandi að feigðarósi
  • Tvennt hægt að gera við tillögurnar
  • Meginvandinn er sjálft regluverkið
  • Málstaður sem skilar ekki auknu fylgi
  • „Við værum í vandræðum án Bandaríkjanna“
  • Með hálfan þingmann á Alþingi
  • Frelsið til þess að ráða eigin málum
  • Hlutleysi veitir enga vörn
  • Verður ríkisábyrgð sett á þúsund milljarða?
  • Viðreisn og báknið
  • Setur Viðreisn í vanda
  • Treysta ekki ESB í varnarmálum
  • Dönsk stjórnarskrá?
  • Hindrar EES fríverzlun við Bandaríkin?
  • Hverju ætti ESB að bæta við?
  • Pólitíski ómöguleikinn
  • Að virða niðurstöður kosninga
©2023 Fullveldi.is | Built using WordPress and Responsive Blogily theme by Superb