Talsvert hefur verið rætt á undanförnum árum um svonefnda gullhúðun við innleiðingu á lagagerðum frá Evrópusambandinu í gegnum aðild Íslands að EES-samningnum. Er þar vísað til þess þegar gerðir eru innleiddar hér á landi meira íþyngjandi en þær koma frá sambandinu. Um er að ræða mál sem full ástæða er til þess að taka föstum tökum en á sama tíma er ljóst að ekki er um að ræða meginvandann í þeim efnum.
Fjallað er um málið í skýrslu ráðgjafanefndar um opinberar eftirlitsreglur frá árinu 2016 sem er eina úttekin sem gerð hefur verið í þessum efnum. Skoðuð voru íþyngjandi lagafrumvörp fyrir atvinnulífið sem samþykkt voru á Alþingi á þremur löggjafarþingum 2013-2016 en nefndina skipa fulltrúar Alþýðusambands Íslands, Sambands íslenzkra sveitarfélaga, Samtaka atvinnulífsins og Viðskiptaráðs auk fulltrúa stjórnvalda.
Helzt vekur athygli í skýrslunni, sem þó kemur ekki mjög á óvart, að íþyngjandi lagafrumvörp fyrir atvinnulífið, sem samþykkt voru á umræddu tímabili, áttu í flestum tilfellum uppruna sinn í regluverki sem kom frá Evrópusambandinu í gegnum EES-samninginn á meðan frumvörp, sem voru einvörðungu metin til einföldunar á regluverki sem fyrir var, voru nær undantekningalaust upprunin innanlands.
Flest frumvörp til einföldunar innlend að uppruna
Fram kemur þannig í skýrslu ráðgjafanefndarinnar að á fyrrnefndu tímabili hafi 35 lagafrumvörp verið samþykkt á Alþingi sem haft hafi áhrif á reglubyrði atvinnulífsins. Þar af voru 29 íþyngjandi fyrir atvinnulífið, þá annað hvort einungis íþyngjandi (17) eða bæði íþyngjandi og til einföldunar (12). Af þessum 29 frumvörpum voru 20 vegna innleiðingar á reglum frá Evrópusambandinu í gegnum EES-samninginn.
Flest þeirra frumvarpa sem töldust einungis íþyngjandi voru upprunin hjá Evrópusambandinu eða 14 af 17. Aðeins þrjú þessara frumvarpa voru innlend að uppruna. Sex af þeim tólf frumvörpum sem voru bæði íþyngjandi og til einföldunar komu frá sambandinu. Hvað gullhúðunina varðar var íþyngjandi regluverk frá Evrópusambandinu innleitt meira íþyngjandi í sjö tilfellum. Það er þriðjungur þess.
Mikill meirihluti þeirra frumvarpa sem voru til einföldunar voru innlend að uppruna eða fimm af sex. Einungis eitt þeirra átti þannig uppruna sinn í reglum í gegnum EES-samninginn. Með öðrum orðum komu sem fyrr segir flest frumvörp, sem samþykkt voru á tímabilinu og höfðu íþyngjandi áhrif á atvinnulífið, frá Evrópusambandinu á sama tíma og flest frumvörp til einföldunar í þeim efnum voru upprunin innanlands.
Verður ekki breytt af íslenzkum stjórnvöldum
Miðað við skýrsluna er gullhúðun regluverks frá Evrópusambandinu í gegnum EES-samninginn þannig ljóslega ekki meginvandinn í þessum efnum, þó hún sé sannarlega vandamál sem vert er að taka á, heldur sjálft regluverkið frá sambandinu. Áherzlan á gullhúðunina er hins vegar skiljanleg í ljósi þess að regluverki í gegnum EES-samninginn verður ekki breytt af íslenzkum stjórnvöldum nema með uppsögn hans.
Fyrir vikið hafa þær aðgerðir, sem stjórnvöld hafa gripið til á liðnum árum til þess að einfalda regluverk, eingöngu snúið að regluverki sem heyrir ekki undir EES-samninginn. Til dæmis regluverk um sjávarútveg. Þannig var til að mynda sérstaklega tekið fram í samkeppnismati OECD fyrir íslenzk stjórnvöld á regluverki um ferðaþjónustu og byggingariðnað árið 2020 að matið næði ekki til regluverks frá Evrópusambandinu.
Hvað varðar til að mynda regluverk frá Evrópusambandinu um fjármálakerfið má rifja upp viðtal Innherja við Unni Gunnarsdóttur, varaseðlabankastjóra Fjármálaeftirlits Seðlabankans, fyrir ári síðan þar sem hún sagði það líklega orðið flóknara en góðu hófi gegndi. Hins vegar ætti það ekki við um öll svið fjármálakerfisins. Til dæmis ekki um regluverk sem gilti um starfsemi lífeyrissjóðanna enda væri það innlent.
Hugsað fyrir allt aðra hagsmuni og aðstæður
Við þetta bætist að á sama tíma og óheimilt er að innleiða regluverk frá Evrópusambandinu minna íþyngjandi en það kemur í gegnum EES-samninginn hefur stjórnsýslan hér á landi í raun fullt svigrúm til þess að innleiða það meira íþyngjandi. Væri samningnum skipt út fyrir víðtækan fríverzlunarsamning, líkt og flest ríki kjósa að semja um í dag, væri hins vegar mögulegt að setja minna íþyngjandi reglur í stað þess eða alls engar.
Fram kemur í lokaorðum skýrslu ráðgjafanefndarinnar að ekki hefði náðst merkjanlegur árangur fram að ritun hennar varðandi það að einfalda íþyngjandi regluverk og er það einkum rakið til þess að meirihluti slíks regluverks kæmi frá Evrópusambandinu. Telja verður allar líkur á því að svo sé enn og líklega í ríkari mæli en áður enda hafa síðan verið gerðar ákveðnar atlögur að því að draga úr byrði innlends regluverks.
Vitaskuld er langur vegur frá því að íslenzkt regluverk geti ekki verið íþyngjandi. Við Íslendingar þurfum hins vegar enga aðstoð frá Evrópusambandinu í þeim efnum. Vegna aðildarinnar að EES-samningnum erum við einfaldlega í þeirri stöðu að þurfa í vaxandi mæli að aðlaga íslenzka hagsmuni og aðstæður að regluverki sem samið er af öðrum og hugsað fyrir allt aðra hagsmuni og aðstæður. Því þarf að breyta.
Hjörtur J. Guðmundsson
sagnfræðingur og alþjóðastjórnmálafræðingur
(Greinin birtist áður í Innherja 6. janúar 2023)
(Ljósmynd: Fánar aðildarrríkja EFTA ásamt fána Evrópusambandsins. Eigandi: EFTA)
Tengt efni:
Verður ríkisábyrgð sett á þúsund milljarða?
Hindrar EES fríverzlun við Bandaríkin?
Stjórnsýslan kvartar undan flóknu regluverki
Tveir ójafnir dómstólar
Hagsmunir Íslands miklu betur tryggðir