Forsenda þess að tekin verði skref í átt að inngöngu í Evrópusambandið er eðli málsins samkvæmt þingmeirihluti fyrir málinu, kjörinn af íslenzkum kjósendum, og ríkisstjórn samstíga um að það verði gert. Til þess þarf samþykki Alþingis og framkvæmd af hálfu stjórnvalda. Deginum ljósara er að stjórnmálaflokkar, sem buðu sig fram fyrir síðustu kosningar á grundvelli þeirrar stefnu að taka ekki slík skref og voru kosnir á þeim forsendum, munu ekki geta staðið að slíku nema með því að hafa það að engu sem þeir sögðu við kjósendur.
Hins vegar vill Viðreisn, eini stjórnmálaflokkurinn sem leggur áherzlu á inngöngu í Evrópusambandið og sem hefur verið að mælast að undanförnu með fylgi í kringum 7-9% í skoðanakönnunum á fylgi flokkanna, að ríkisstjórnarflokkarnir, sem allir eru andvígir inngöngu í sambandið og buðu fram undir þeirri stefnu fyrir síðustu kosningar, taki skref í þá átt. Með öðrum orðum að stjórnarflokkarnir framkvæmi stefnu Viðreisnar þvert á eigin stefnu og það sem þeir sögðu við kjósendur sína fyrir síðustu kosningar haustið 2021.
Hver bannaði umræðuna?
Vitanlega er það eingöngu á ábyrgð Viðreisnar að vinna að eigin stefnumálum, og að afla sér fylgis út á þau, en ekki annarra. Forystumenn flokksins geta á engan hátt ætlazt til þess að aðrir flokkar vinni að stefnumálum hans þvert á sína eigin stefnu. Ekki ætti að þurfa að taka svo augljósar staðreyndir fram en miðað við málflutning forystumanna Viðreisnar, ekki sízt á síðum Morgunblaðsins á undanförnum vikum, þarf þess greinilega. Þar hefur jafnvel verið talað á þeim nótum að bannað væri að ræða um Evrópusambandið.
Mér vitanlega hefur enginn bannað umræður um Evrópusambandið. Þó umræðan skili ekki þeim niðurstöðum sem forystumenn Viðreisnar vilja sjá þýðir það ekki að hún hafi verið bönnuð. Þó aðrir flokkar séu ekki reiðubúnir að framkvæma stefnu Viðreisnar þýðir það ekki að bannað sé að ræða um Evrópusambandið. Það er, sem fyrr segir, vitanlega á ábyrgð Viðreisnar og ekki annarra að vinna að stefnumálum flokksins og afla honum fylgis út á þau. Þeirri ábyrgð verður ekki varpað yfir á aðra flokka með aðrar áherzlur.
Hvað er þá að Viðreisn?
Forystumenn Viðreisnar vilja meina að hávær krafa sé um inngöngu í Evrópusambandið og vísa í niðurstöður skoðanakannana. Að vísu er innan við helmingur hlynntur inngöngu samkvæmt þeim og þar af einungis um 20% mjög hlynnt miðað við nýjustu könnunina sem framkvæmd var af Maskínu. Fleiri eru mjög andvígir. En telji forystumennirnir þetta engu að síður rétt stendur vitanlega upp á þá að útskýra hvers vegna það hafi ekki skilað sér í stórauknum stuðningi við eina flokkinn með áherzlu á málið? Hvað sé þá að honum?
Vert er að hafa í huga að á sama tíma benda niðurstöður skoðanakannana þvert á móti til stóraukins fylgis við Samfylkinguna eftir að því var lýst yfir þar á bæ að ekki yrði lengur lögð áherzla á inngöngu í Evrópusambandið. Miðað við kannanir hefur stuðningur við flokkinn einkum aukizt í röðum þeirra sem ekki vilja ganga í sambandið. Samantekið bendir þannig flest til þess, hvað sem líður óskhyggju forystumanna Viðreisnar um annað, að mjög langur vegur sé frá því að hávær krafa sé uppi um inngöngu í Evrópusambandið.
Hjörtur J. Guðmundsson
sagnfræðingur og alþjóðastjórnmálafræðingur
(Greinin birtist áður í Morgunblaðinu 30. maí 2023)
(Ljósmynd: Alþingishúsið. Eigandi: Hjörtur J. Guðmundsson)
Tengt efni:
„Þið vitið fullkomlega hvað er í pakkanum“
Minnast ekki á lokamarkmiðið
Fátt bendir til norskrar inngöngu í ESB
Versnandi staða fámennari ríkja ESB
Málstaður sem skilar ekki auknu fylgi