Full ástæða er til þess að vekja athygli á því þegar regluverk frá Evrópusambandinu, sem tekið hefur verið upp hér á landi í gegnum EES-samninginn, er innleitt meira íþyngjandi hérlendis en það er þegar það kemur frá sambandinu. Svonefndri gullhúðun. Þetta skiptir ekki sízt máli þar sem regluverkið frá Evrópusambandinu er gjarnan mjög íþyngjandi fyrir sem aftur er fyrst og fremst vandamálið í þessum efnum.
Fjallað var nú síðast um gullhúðunina í greiningu Viðskiptaráðs á innleiðingu tilskipunar Evrópusambandsins um birtingu ófjárhagslegra upplýsinga. Kallaði Agla Eir Vilhjálmsdóttir, lögfræðingur Viðskiptaráðs, í kjölfarið eftir því í Dagmálum 12. júlí að ný skýrsla yrði unnin líkt og gert hefði verið 2016 þar sem komið hefði fram að þriðjungur regluverks frá sambandinu hefði verið innleiddur meira íþyngjandi hér á landi.
Fleira kemur fram í skýrslunni frá 2016, sem unnin var af ráðgjafanefnd um opinberar eftirlitsreglur, og þar á meðal að mikill meirihluti lagafrumvarpa, sem samþykkt voru á Alþingi á árunum 2013-2016 og höfðu íþyngjandi áhrif á atvinnulífið, hafi falið í sér innleiðingu á regluverki frá Evrópusambandinu en nefndin er meðal annars skipuð fulltrúum frá Viðskiptaráði, Samtökum atvinnulífsins og Alþýðusambandi Íslands.
Fram kemur þannig í skýrslunni að af 29 íþyngjandi frumvörpum, sem samþykkt voru á Alþingi á umræddu tímabili, hafi 20 falið í sér innleiðingu á regluverki frá Evrópusambandinu eða 69%. Hlutfallið var enn hærra í tilfelli frumvarpa sem eingöngu voru íþyngjandi (ekki bæði íþyngjandi og til einföldunar) eða 14 af 17 (82%). Á sama tíma voru frumvörp eingöngu til einföldunar nær öll innlend smíði eða fimm af sex.
Flóknara regluverk en góðu hófi gegnir
Með öðrum orðum er gullhúðun regluverks frá Evrópusambandinu í gegnum EES-samninginn þannig ljóslega ekki meginvandinn í þessum efnum sem fyrr segir, þó hún sé sannarlega vandi sem taka þarf föstum tökum, heldur sjálft regluverkið frá sambandinu. Áherzlan á gullhúðunina er hins vegar skiljanleg þar sem regluverkinu verður ekki breytt af íslenzkum stjórnvöldum á meðan Ísland er aðili að samningnum.
Fyrir vikið hafa þær aðgerðir, sem stjórnvöld hafa gripið til á liðnum árum til þess að einfalda regluverk, eingöngu snúið að regluverki sem heyrir ekki undir EES-samninginn. Til að mynda regluverk um sjávarútveg. Eins var að sama skapi tekið sérstaklega fram í samkeppnismati OECD fyrir ríkisstjórnina á regluverki um ferðaþjónustu og byggingariðnað árið 2020 að matið næði ekki til regluverks frá Evrópusambandinu.
Hvað varðar til að mynda regluverk frá Evrópusambandinu um fjármálakerfið má rifja upp viðtal Innherja við Unni Gunnarsdóttur, þáverandi varaseðlabankastjóra Fjármálaeftirlits Seðlabankans, í lok árs 2021 þar sem hún sagði það líklega orðið flóknara en góðu hófi gegndi. Hins vegar ætti það ekki við um öll svið fjármálakerfisins. Til dæmis ekki um regluverk sem gilti um starfsemi lífeyrissjóðanna enda væri það innlent.
Hliðstæð gagnrýni kom fram í máli Lilju Bjarkar Einarsdóttur, bankastjóra Landsbankans, í Dagmálum í ágúst á síðasta ári þar sem hún sagði að eftirlitskröfur, sem rekja mætti til regluverks frá Evrópusambandinu, þýddu að sífellt meiri vinna færi í skriffinsku vegna þeirra. Virkt eftirlit væri mikilvægt en að það mætti hins vegar ekki verða svo íþyngjandi að starfsfólk gerði mest að því að horfa í baksýnisspegilinn.
Minna íþyngjandi reglur eða alls engar
Fram kemur í skýrslu ráðgjafanefndarinnar að ekki hefði náðst merkjanlegur árangur fram að ritun hennar í því að einfalda íþyngjandi regluverk sem einmitt er einkum rakið til þess að meirihluti slíks regluverks kæmi frá Evrópusambandinu. Eðli málsins samkvæmt er íþyngjandi regluverk frá sambandinu, sem innleitt er hér á landi, ávísun á mikinn kostnað fyrir íslenzkt atvinnulíf og minni samkeppnishæfni á alþjóðavísu.
Við það bætist að þó Ísland sé utan tollamúra Evrópusambandsins er landið innan regluverksmúra þess vegna EES-samningsins en regluverk hefur í seinni tíð tekið við af tollum sem helzta verkfærið til þess að viðhalda verndarhyggju í milliríkjaviðskiptum. Ekki sízt hjá sambandinu. Fyrir vikið er aðildin að samningnum í vaxandi mæli viðskiptahindrun gagnvart öðrum mörkuðum sem eru miklu fremur framtíðarmarkaðir.
Talað er gjarnan um það að EES-samningurinn þýði að íslenzkt atvinnulíf sé samkeppnishæft á við atvinnulíf annarra ríkja innan Evrópska efnahagssvæðisins en nær væri þó að segja að vegna hans sé hérlent atvinnulíf jafn ósamkeppnishæft og það. Forystumenn innan Evrópusambandsins hafa enda beinlínis gengizt við því að regluverk sambandsins sé til þess fallið að draga úr samkeppnishæfni ríkja sem bundin eru af því.
Vert er að lokum að hafa það í huga að óheimilt er samkvæmt EES-samningnum að innleiða regluverk frá Evrópusambandinu minna íþyngjandi en það kemur í gegnum hann á meðan ríflegt svigrúm er til þess að innleiða það meira íþyngjandi. Væri samningnum skipt út fyrir víðtækan fríverzlunarsamning, líkt og flest ríki kjósa að semja um í dag, væri hins vegar hægt að setja minna íþyngjandi reglur í stað þess eða alls engar.
Hjörtur J. Guðmundsson
sagnfræðingur og alþjóðastjórnmálafræðingur
(Greinin birtist áður í Morgunblaðinu 10. ágúst 2023)
(Ljósmynd: Fánar aðildarrríkja EFTA ásamt fána Evrópusambandsins. Eigandi: EFTA)
Tengt efni:
Vissulega lítið vit í slíkum samningi
Meira en heildartekjur ríkissjóðs
Minna svigrúm til viðskiptasamninga
Meginvandinn er sjálft regluverkið
Hagsmunir Íslands miklu betur tryggðir