Formaður Viðreisnar, Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, ritaði athyglisverða grein í Morgunblaðið á dögunum þar sem hún spurði í hvaða liði við vildum vera í varnarmálum og vildi ljóslega stilla Bandaríkjunum og Evrópu upp sem andstæðum í þeim efnum. Formanninum til upplýsingar erum við þegar í varnarsamstarfi í gegnum NATO við bæði Bandaríkin og meirihluta Evrópuríkja. Þar af nær öll ríki Evrópusambandsins.
Með öðrum orðum útilokar vitanlega ekki eitt annað í þessu sambandi. Með aðild Svíþjóðar og Finnlands að NATO standa einungis fjögur ríki Evrópusambandsins af 27 utan varnarbandalagsins, Austurríki, Írland, Malta og Kýpur, en umrædd ríki eiga það sameiginlegt að búa yfir takmarkaðri varnargetu. Utan sambandsins en í NATO eru hins vegar meðal annars Bretland, Kanada og Noregur fyrir utan Bandaríkin.
Formaðurinn spurði að því hvort við gætum raunverulega treyst á varnarsamninginn við Bandaríkin, sérstaklega ef til þess kæmi að Donald Trump yrði aftur Bandaríkjaforseti, og hvernig NATO myndi þróast í kjölfarið. Vísaði Þorgerður Katrín þar til þess að Trump hefði lýst því yfir að hann teldi enga ástæðu til þess að virða grunnreglu NATO-sáttmálans um að árás á eitt aðildarríki bandalagsins jafngildi árás á öll ríkin.
Virða í reynd ekki grunnreglu NATO
Fyrir það fyrsta er mikilvægt að hafa í huga að umrædd ummæli Trumps, sem full ástæða er þess utan til þess að gagnrýna, voru sett fram vegna alvarlegrar vanrækslu margra Evrópuríkja í varnarmálum. Hann hefur þannig gert að því skóna að sem Bandaríkjaforseti myndi hann ekki koma þeim aðildarríkjum NATO til hjálpar sem ekki hefðu staðið við skuldbindingar sínar gagnvart bandalaginu um framlög til varnarmála.
Hver Bandaríkjaforsetinn á fætur öðrum, bæði úr röðum demókrata og replúblikana, hefur á liðnum árum og áratugum gagnrýnt Evrópuríki fyrir það að standa ekki við lágmarksskuldbindingar sínar í þessum efnum þó þeir hafi komið gagnrýni sinni á framfæri á mun dannaðri hátt en Trump sem er ekki beinlínis þekktur fyrir háttvísa framkomu. Sjálfir standa Bandaríkjamenn undir miklum meirihluta reksturs NATO.
Hins vegar segir það sig sjálft að með því að standa ekki við skuldbindingar sínar vegna aðildarinnar að NATO um framlög til varnarmála eru umrædd Evrópuríki í reynd ekki að virða grunnregluna um að árás á eitt ríki bandalagsins sé árás á þau öll. Eðli málsins samkvæmt er takmarkað gagn að því að segjast reiðubúinn til þess að koma öðrum til varnar þegar viðkomandi hefur í raun og veru alls enga burði til þess.
Væru í vandræðum án Bandaríkjanna
Veruleikinn er einfaldlega sá að vegna vanrækslu sinnar í varnarmálum um langt árabil eru flest Evrópuríki, þar á meðal og ekki hvað sízt forysturíki Evrópusambandsins, í reynd ófær um að sinna eigin vörnum og hvað þá annarra. Þrátt fyrir hástemmdar yfirlýsingar um bót og betrun hefur lítið lagast í þeim efnum. Þetta eru sömu ríkin og formaður Viðreisnar vill greinilega að treyst verði alfarið fyrir vörnum Íslands.
Komið var ágætlega inn á þennan veruleika í máli Sönnu Marin, þáverandi forsætisráðherra Finnlands, á fundi á vegum Lowy Institute í Sydney í Ástralíu í desember 2022: „Ég verð að vera algerlega hreinskilin við ykkur, Evrópusambandið er ekki nógu sterkt eins og staðan er í dag. Við værum í vandræðum án Bandaríkjanna.“ Þannig hefði sambandið ekki haft getu til þess að bregðast sem skyldi við innrásinni í Úkraínu.
Mánuði áður hafði Pekka Haavisto, þáverandi utanríkisráðherra Finnlands, látið þau orð falla á ráðstefnu NATO-þingsins í Helsinki, höfuðborg landsins, að finnsk stjórnvöld hefðu sótt um aðild að NATO þar sem ekki væri hægt að treysta á Evrópusambandið í varnarmálum. Undir þetta tók fulltrúi sænskra stjórnvalda á ráðstefnunni. Svíar hefðu einnig sótt um aðild að NATO þar sem ekki væri mögulegt að stóla á sambandið.
Verða enn ófær um að sjá um eigin varnir
Taka mun flest Evrópuríki mörg ár að byggja upp varnir sínar takist það á annað borð. Til dæmis birtist nú síðast 18. febrúar umfjöllun þess efnis í tímaritinu Economist sem þykir afar hliðhollt Evrópusambandinu. Þá hafði brezka ríkisútvarpið BBC á dögunum eftir Armin Papperger, forstjóra þýzka vopnaframleiðandans Rheinmetall, að taka muni Evrópuríki áratug að verða í stakk búin til þess að sjá um sínar eigin varnir.
Hafa má í huga að jafnvel þó Trump verði aftur forseti Bandaríkjanna, sem ég vona persónulega að verði ekki raunin, getur hann einungis setið eitt kjörtímabil enn samkvæmt bandarísku stjórnarskránni. Vissulega getur ýmislegt gerzt á fjórum árum en þegar Trump hyrfi endanlega úr Hvíta húsinu væru allar líkur á því að flest Evrópuríki yrðu ekki enn komin á þann stað að geta séð um eigin varnir. Hvað þá annarra.
Formaðurinn nefndi í grein sinni nýlega framgöngu fulltrúadeildar Bandaríkjaþings í þessum efnum sem væri að hennar mati umhugsunarverð. Til hvaða framgöngu verið var að skírskota kom ekki fram en líklega ekki lagabreytingar sem samþykkt var í desember með þverpólitískum stuðningi á bandaríska þinginu þess efnis að forseti Bandaríkjanna gæti ekki dregið landið einhliða út úr NATO án samþykkis þingsins.
Staða Íslands ólík annarra Evrópuríkja
Varðandi framtíð NATO er annars ljóst að jafnvel þó svo ólíklega vildi til að Bandaríkin segðu skilið við bandalagið yrðum við Íslendingar eftir sem áður í varnarsamstarfi innan þess við meirihluta Evrópuríkja auk Kanada og þar af, eins og áður hefur komið fram, nær öll ríki Evrópusambandsins. Þá hefur hvorki Trump né aðrir áhrifamenn í bandarískum stjórnmálum kallað eftir uppsögn varnarsamningsins við Ísland.
Þvert á móti hafa bandarískir ráðamenn ítrekað lýst yfir vilja til þess á undanförnum árum að efla varnarsamstarf við íslenzk stjórnvöld. Bæði í stjórnartíð Trumps og demókrata. Þar spilar sem fyrr einkum inn í landfræðileg staðsetning Íslands sem hefur frá því í síðari heimsstyrjöldinni verið talin skipta máli fyrir bandarískar landvarnir. Með öðrum orðum er Ísland í talsvert annarri stöðu í þeim efnum en önnur Evrópuríki.
Hvernig sem á málið er litið er annars ljóst að Evrópusambandið á engan stað í umræðum um varnarmál Íslands. Til þess hefur sambandið einfaldlega fyrir utan annað alls enga burði auk þess sem nær öll ríki þess eru þegar í NATO. Varnir landsins verða áfram bezt tryggðar með aðildinni að NATO og varnarsamningnum við Bandaríkin, eina vestræna ríkið sem getur og mun í fyrirsjáanlegri framtíð geta varið sjálft sig og aðra.
Hjörtur J. Guðmundsson
sagnfræðingur og alþjóðastjórnmálafræðingur
(Greinin birtist áður í Morgunblaðinu 1. marz 2024)
(Ljósmynd: Bandarísk flotadeild. Eigandi: National Museum of the U.S. Navy)
Tengt efni:
Vantreysta ESB í varnarmálum
Flotið vakandi að feigðarósi
„Við værum í vandræðum án Bandaríkjanna“
Hlutleysi veitir enga vörn
Hvers vegna vilja Svíar og Finnar í NATO?