Skip to content

Fullveldi.is

VEFSETUR UM UTANRÍKIS- OG VARNARMÁL

Menu
  • Heim
  • Greinar
  • Skýrslur
  • Fullveldi.is
  • English
Menu

„Við værum í vandræðum án Bandaríkjanna“

Posted on 08/12/202208/12/2022 by Fullveldi

Fyrir síðustu helgi lét Sanna Marin, forsætisráðherra Finnlands, þau orð falla á fundi sem skipulagður var af hugveitunni Lowy Institute í Sydney í Ástralíu, að án Bandaríkjanna væri Evrópusambandið í vandræðum þegar kæmi að varnarmálum. Þannig hefði sambandið ekki haft burði til þess að bregðast sem skyldi við innrás rússneska hersins í Úkraínu og fyrir vikið orðið að treysta á Bandaríkjamenn.

„Ég verð að vera algerlega hreinskilin við ykkur, Evrópusambandið er ekki nógu sterkt eins og staðan er í dag. Við værum í vandræðum án Bandaríkjanna,“ sagði Marin varðandi stríðið í Úkraínu. Fram kemur í frétt BBC um ummæli hennar að vopnabúr ríkja sambandsins séu að tæmast vegna stuðnings við Úkraínumenn þrátt fyrir að framlag ríkjanna hafi verið hverfandi í samanburði við stuðning Bandaríkjanna.

Stefna Evrópusambandsins beðið skipbrot

Marin gagnrýndi harðlega þau ríki Evrópusambandsins sem hefðu sótzt eftir því að mynda nánari efnahagsleg tengsl við Rússland undanfarna áratugi með kaupum á rússneskri orku en sambandið hefði nálgast málin með sama hætti. „Við héldum að með þessu yrði komið í veg fyrir stríð,“ sagði hún. Sú stefna hefði hins vegar beðið algert skipbrot. Rússneskum stjórnvöldum væri sama um efnahagsleg tengsl.

Fyrir rúmum mánuði sagði Pekka Haavisto, utanríkisráðherra Finnlands, á ráðstefnu NATO-þingsins í Helsinki, höfuðborg landsins, að ástæðan fyrir umsókn Finnlands um inngöngu í NATO væri sú að ekki væri hægt að treysta á Evrópusambandið í varnarmálum. Undir þetta tók fulltrúi sænskra stjórnvalda á ráðstefnunni en Svíþjóð, sem líkt og Finnland er í sambandinu, stefnir einnig á inngöngu í NATO.

Treystu á Rússland og Kína í efnahagsmálum

Komið hefur ítrekað fram í máli Joseps Borrell, utanríkismálastjóra Evrópusambandsins, að hernaður rússneskra stjórnvalda í Úkraínu hafi verið fjármagnaður með kaupum ríkja sambandsins á rússneskri olíu og gasi um langt árabil. Margoft hefði verið varað við því í aðdraganda stríðsins hversu háð Evrópusambandið væri Rússlandi í orkumálum en í stað þess að draga úr í þeim efnum hefði verið farið í öfuga átt.

Fram kom einnig í máli Borrells á fundi með sendiherrum Evrópusambandsins í október að sambandið hefði reitt sig á Bandaríkin í öryggismálum og reist efnahagslega velmegun sína á kaupum á ódýrri orku frá Rússlandi og kaupum á ódýrum varningi frá Kína. Það væri ekki mögulegt lengur en ljóst væri að sú breyting yrði erfið efnahagslega fyrir Evrópusambandið og myndi hafa í för með sér ýmis vandamál.

Hryggjarstykkið í vörnum vestrænna ríkja

Meðal þess sem stríðið í Úkraínu hefur leitt af sér er að varpa enn betra ljósi en áður á það hversu illa að vígi Evrópusambandið stendur í öryggis- og varnarmálum. Ekki sízt þegar kemur að efnahagsöryggi. Fullyrðingar sem heyrzt hafa, þess efnis að Ísland þurfi að ganga í sambandið til þess að tryggja öryggis- og varnarhagsmuni landsins, þar á meðal efnahagsöryggi þess, standast þannig alls enga skoðun.

Fyrir liggur að Bandaríkin verða áfram hryggjarstykkið í vörnum vestrænna ríkja enda eina ríkið í þeim hópi sem hefur í reynd burði til þess að verja bæði sig sjálf og aðra. Þar með talið innan NATO en Bandaríkjamenn standa undir miklum meirihluta útgjalda bandalagsins. Þannig er ljóst að varnir Íslands verða sem fyrr bezt tryggðar með áframhaldandi aðild að NATO og varnarsamningnum við Bandaríkin.

Hjörtur J. Guðmundsson
sagnfræðingur og alþjóðastjórnmálafræðingur

(Greinin birtist áður á Vísir.is 8. desember 2022)

(Ljósmynd: Sanna Marinn, forsætisráðherra Finnlands. Eigandi: Ráðherraráð Evrópusambandsins)


Tengt efni:
Hlutleysi veitir enga vörn
Treysta ekki ESB í varnarmálum
Hverju ætti ESB að bæta við?
Háð bæði Kína og Rússlandi
Hvers vegna vilja Svíar og Finnar í NATO?

HELZTU GREINAR


Meira en heildartekjur ríkissjóðs

Tryggðar innistæður í fjármálastofnunum á Íslandi námu 1.228 milljörðum króna um síðustu áramót samkvæmt upplýsingum frá Tryggingasjóði vegna fjármálafyrirtækja (TVF) og jukust þær um eitt hundrað milljarða á síðasta ári. Komi til þess að ný tilskipun Evrópusambandsins um innistæðutryggingar verði innleidd á Íslandi vegna EES-samningsins mun það að öllum líkindum þýða ríkisábyrgð á tryggðum innistæðum.



Versnandi staða fámennari ríkja ESB

Meðal þeirra breytinga sem orðið hafa á Evrópusambandinu á undanförnum árum er að vægi fámennari ríkja sambandsins við ákvarðanatökur í ráðherraráði þess hefur minnkað stórlega. Einkum þeirra fámennustu. Krafa um einróma samþykki í ráðinu heyrir þannig í raun til algerra undantekninga í dag ólíkt því sem áður var og þess í stað er miðað við meirihlutasamþykki þar sem vægi ríkjanna fer fyrst og fremst eftir því hversu fjölmenn þau eru. Hvort tveggja hefur eðli málsins samkvæmt komið sér verst fyrir fámennustu ríkin.



Minna svigrúm til viðskiptasamninga

Með aðild Íslands að EES-samningnum hefur regluverk frá Evrópusambandinu, sem tekið hefur verið upp í gegnum samninginn, skapað viðskiptahindranir gagnvart nánustu viðskiptalöndum landsins utan Evrópskra efnahagssvæðisins (EES) og stuðlað að minna svigrúmi EFTA-ríkjanna sem aðild eiga að samningnum, Íslands, Noregs og Liechtensteins, til þess að semja um viðskipti við ríki utan svæðisins.


Færslur

  • Vissulega lítið vit í slíkum samningi
  • Hver á að framkvæma stefnu Viðreisnar?
  • „Þið vitið fullkomlega hvað er í pakkanum“
  • Minnast ekki á lokamarkmiðið
  • Fátt bendir til norskrar inngöngu í ESB
  • Meira en heildartekjur ríkissjóðs
  • Þegar raunveruleikinn hentar ekki
  • Versnandi staða fámennari ríkja ESB
  • Minna svigrúm til viðskiptasamninga
  • Dvínandi eða vaxandi?
  • Dvínandi stuðningur við inngöngu í ESB
  • Flotið vakandi að feigðarósi
  • Tvennt hægt að gera við tillögurnar
  • Meginvandinn er sjálft regluverkið
  • Málstaður sem skilar ekki auknu fylgi
  • „Við værum í vandræðum án Bandaríkjanna“
  • Með hálfan þingmann á Alþingi
  • Frelsið til þess að ráða eigin málum
  • Hlutleysi veitir enga vörn
  • Verður ríkisábyrgð sett á þúsund milljarða?
©2023 Fullveldi.is | Built using WordPress and Responsive Blogily theme by Superb