Tryggðar innistæður í fjármálastofnunum á Íslandi námu 1.359 milljörðum króna um síðustu áramót samkvæmt upplýsingum frá Tryggingasjóði vegna fjármálafyrirtækja (TVF) og jukust þær um rúma 70 milljarða á síðasta ári. Í byrjun árs 2021 voru tryggðar innistæður á Íslandi um 1.000 milljarðar króna og hafa þannig aukizt um þriðjung á undanförnum þremur árum eða að meðaltali um rúmlega eitt hundrað milljarða á ári.
Komi til þess að ný tilskipun Evrópusambandsins um innistæðutryggingar nr. 2014/49/EU verði innleidd á Íslandi vegna aðildarinnar að EES-samningnum mun það að öllum líkindum þýða ríkisábyrgð á tryggðum innistæðum. Hérlend stjórnvöld hafa lagt áherzlu á mikilvægi þess að Ísland fái undanþágu frá ákvæðum tilskipunarinnar um ríkisábyrgð en um leið viðurkennt að ólíklegt sé að hún verði veitt.
Til þess að setja tryggðar innistæður hér á landi um áramótin í samhengi námu þær um þriðjungi af vergri landsframleiðslu síðasta árs og hærri fjárhæð en áætlaðar heildartekjur ríkissjóðs á síðasta ári. Þá er vert að hafa það í huga að í Tryggingasjóði vegna fjármálafyrirtækja er að finna 20 milljarða króna til þess að mæta ábyrgðum vegna tryggðra innistæðna ef þess gerðist þörf samkvæmt upplýsingum frá sjóðnum.
Töpum Icesave-málum framtíðarinnar
Málið snýst í raun um kjarna Icesave-deilunnar enda ljóst að hefði umrædd tilskipun Evrópusambandsins verið í gildi hér á landi þegar deilan kom upp á sínum tíma hefði hún tapast. Deilan snerist sem kunnugt er einkum um það hvort ríkisábyrgð væri á innistæðum í Icesave-netbanka Landsbanka Íslands sem rekinn var í Bretlandi og Hollandi. Fór svo að lokum að EFTA-dómstóllinn úrskurðaði í byrjun árs 2013 að svo væri ekki.
Fram kom í ræðu sem Guðlaugur Þór Þórðarson, þáverandi utanríkisráðherra, flutti á Alþingi í október 2019 að Íslendingar ættu eftir að tapa Icesave-málum framtíðarinnar yrði tilskipunin innleidd hér á landi. Réttara er að slíkt mál mun væntanlega ekki koma upp enda ríkisábyrgð þá staðreynd. Þá upplýsti ráðherrann enn fremur að sérfræðingar Evrópusambandsins litu svo á að tilskipunin fæli í sér ríkisábyrgð á innistæðum.
Með hliðsjón af efni umræddrar tilskipunar Evrópusambandsins, sem er í raun svar sambandsins við sigri Íslands í Icesave-deilunni, er ljóst að hún kveður á um ríkisábyrgð. Þannig segir til dæmis í 10. grein hennar að ríki skuli sjá til þess að innistæðutryggingasjóðir séu í stakk búnir til þess að standa við skuldbindingar sínar og tryggja auk þess aðgengi þeirra að skammtímafjármögnun til þess að mæta kröfum á hendur þeim.
Evrópusambandið alls staðar við stýrið
Tilskipunin hefur ekki verið tekin fyrir í sameiginlegu EES-nefndinni, þar sem regluverk frá Evrópusambandinu er tekið upp í EES-samninginn, en fyrr en síðar er viðbúið að sú verði raunin. Telja verður ólíklegt að íslenzk stjórnvöld verði reiðubúin til þess að beita svonefndu neitunarvaldi í samningnum þrátt fyrir alvarleika málsins en þau hafa til þessa sagt ekki hættandi á slíkt vegna mögulegra viðbragða sambandsins.
Málið er annars afar lýsandi fyrir þann veruleika að Evrópusambandið er í raun alls staðar við stjórnvölinn þegar EES-samningurinn er annars vegar. Þannig er til að mynda undir sambandinu komið hvaða regluverk þess fellur undir samninginn og enn fremur hvort einhverjar undanþágur verði veittar í þeim efnum. Þá getur einungis Evrópusambandið breytt því regluverki sem tekið hefur verið upp í EES-samninginn.
Hins vegar er leið út úr þessum aðstæðum sem ríki heimsins kjósa allajafna að fara í dag þegar þau semja um milliríkjaviðskipti. Víðtækur fríverzlunarsamningur. Leið sem, ólíkt EES-samningnum og í enn ríkari mæli inngöngu í Evrópusambandið, felur ekki í sér vaxandi framsal valds yfir íslenzkum málum í gegnum íþyngjandi regluverk sem er ekki okkar, tekur ekki mið af okkar hagsmunum og við getum ekki breytt.
Hjörtur J. Guðmundsson
sagnfræðingur og alþjóðastjórnmálafræðingur
(Greinin birtist áður í Morgunblaðinu 8. apríl 2024)
(Ljósmynd: Vefsíða Icesave-internetbankans. Eigandi: Hjörtur J. Guðmundsson)
Tengt efni:
Höfum aldrei notið fulls tollfrelsis
Með of mikil völd
Vilja fríverzlunarsamning í stað EES
Hindrar fríverzlun við Bandaríkin
Hvað gerir Bjarni við bókun 35?