Flokksráðsfundur Sjálfstæðisflokksins sem fram fór nýverið áréttaði meðal annars þá stefnu flokksins að framsal valdheimilda til stofnana Evrópusambandsins í gegnum EES-samninginn væri óheimil ef það bryti gegn tveggja stoða kerfi samningsins. Landsfundur Sjálfstæðisflokksins hafði áður ályktað á sama hátt á síðasta ári og enn fremur að tryggja þyrfti framkvæmd EES-samningsins á grundvelli tveggja stoða kerfisins.
Fyrrnefndar samþykktir eru ekki að ástæðulausu en á liðnum árum hefur jafnt og þétt molnað undan tveggja stoða kerfi EES-samningsins. Kerfið felur í sér tvær stoðir eins og nafnið gefur til kynna, annars vegar EFTA-stoðina sem Ísland tilheyrir ásamt Noregi og Liechtenstein og hins vegar Evrópusambandsstoðina. Samkvæmt því eiga EFTA/EES-ríkin þrjú ekki að falla undir valdheimildir stofnana Evrópusambandsins.
Hins vegar hefur Evrópusambandið í vaxandi mæli sótt að tveggja stoða kerfi EES-samningsins á undanförnum árum með endurteknum kröfum um það að EFTA/EES-ríkin, Ísland þar með talið, fari með beinum hætti undir vald stofnana þess. Íslenzkir ráðamenn hafa ítrekað varað við þessari þróun og áréttað mikilvægi tveggja stoða kerfisins sem kjarna EES-samningsins en þrátt fyrir það hefur þróunin einungis haldið áfram.
„Það megum við aldrei gera“
„Ég vil vera alveg skýr varðandi kröfuna um að við framseljum vald til stofnana sem við eigum ekki aðild að, það megum við aldrei gera. Ég tel að það sé ekkert ríki Evrópu sem mundi samþykkja að gera eitthvað slíkt,“ sagði Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, á Alþingi 6. febrúar 2018. Það væri hins vegar í grunninn það sem Evrópusambandið væri að fara fram á „í litlum hænufetsskrefum.“
„Við höfum brugðizt við þeirri kröfu með því að búa til einhvers konar bræðing á milli þeirrar kröfu og hinnar lausnarinnar sem er skýr tveggja stoða lausn. Þarna finnst mér við vera komin á grátt svæði,“ sagði Bjarni enn fremur um fyrirkomulag sem komið hefur í vaxandi mæli í stað tveggja stoða kerfisins þar sem Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) hefur að nafninu til farið með tiltekið vald en stofnanir Evrópusambandsins í raun.
„Ef þetta fer að verða æ algengara, eins og mér sýnist, að Evrópusambandið setji fram skýlausa kröfu um að EFTA-ríkin undirgangist boðvald Evrópusambandsstofnana sem við eigum ekki aðild að þá kallar það á viðbrögð, það hlýtur að gera það. Ef þau leiða á endanum til þess að við þurfum að taka EES-samninginn til endurskoðunar þá gerum við það. Við gerum það alltaf frekar en að fallast á kröfu sem er óásættanleg.“
Mótmælt í orði en ekki á borði
Frá því að þessi orð formanns Sjálfstæðisflokksins féllu fyrir fimm og hálfu ári síðan hefur í raun ekkert breytzt í þessum efnum. Sama þróun hefur einfaldlega haldið áfram. Þannig var til að mynda „bræðingnum“ beitt við innleiðingu þriðja orkupakka Evrópusambandsins og persónuverndarlöggjöf sambandsins var innleidd algerlega framhjá tveggja stoða kerfinu. Ísland heyrir fyrir vikið beint undir persónuverndarstofnun þess.
Markmið Evrópusambandsins er ljóslega að EFTA/EES-ríkin fari beint undir stofnanir sambandsins í öllum þeim málaflokkum sem EES-samningurinn nær til og ganga þannig í reynd af tveggja stoða kerfinu dauðu. Einni helztu forsenda þess að Ísland gerðist aðili að samningnum. Forystumenn Sjálfstæðisflokksins hafa stundum mótmælt þessari framgöngu, líkt og formaður flokksins 2018, en síðan einfaldlega látið hana yfir sig ganga.
Full ástæða er til þess að taka aðild Íslands að EES-samningnum til endurskoðunar með það fyrir augum að skipta honum út fyrir nútímalegan víðtækan fríverzlunarsamning við Evrópusambandið líkt og við höfum þegar gert í tilfelli Bretlands, annars stærsta viðskiptalands okkar. Fyrirkomulag sem tryggir viðskiptahagsmuni Íslands en felur hins vegar ólíkt EES-samningnum ekki í sér vaxandi framsal valds yfir íslenzkum málum.
Hjörtur J. Guðmundsson
sagnfræðingur og alþjóðastjórnmálafræðingur
(Greinin birtist áður í Morgunblaðinu 13. september 2023)
(Ljósmynd: Fánar aðildarrríkja EFTA ásamt fána Evrópusambandsins. Eigandi: EFTA)
Tengt efni:
„Stjórnsýsla Íslands er lítil“
Fullkomin uppgjöf
Meirihluti íþyngjandi löggjafar í gegnum EES
Vissulega lítið vit í slíkum samningi
Meira en heildartekjur ríkissjóðs