Heyrist raddir innan stjórnmálaflokka sem ekki eru í samræmi við yfirlýsta stefnu þeirra ber forystumönnum flokkanna að beita sér gegn þeim. Þetta voru skilaboð Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur, formanns Viðreisnar, í umræðum á Alþingi 10. október síðastliðinn þar sem hún spurði Bjarna Benediktsson, forsætisráðherra og formann Sjálfstæðisflokksins, að því hvort hann hefði „ekki stjórn á sínu eigin fólki“ og hvatti hann til þess að „standa í lappirnar“ gegn röddum innan flokksins sem gagnrýndu EES-samninginn.
Viðbrögð Þorgerðar Katrínar við umfjöllun mbl.is 10. nóvember, þar sem fram kom að samkvæmt gildandi stefnu flokksins, samþykktri á síðasta landsþingi hans fyrir einungis einu og hálfu ári síðan, væri stefnt að því að banna nýskráningu á bensín- og díselbílum á næsta ári, voru í sama anda. Formaðurinn lýsti því þannig yfir að til hefði staðið að breyta málefnaskránni á næsta landsþingi þar sem breytingar hefðu átt sér stað í málaflokknum. Fyrir vikið ætlaði flokkurinn ekki lengur að standa við þá ályktun þar sem hún væri óraunhæf.
Fram kemur í samþykktum Viðreisnar að landsþing sé „æðsta vald í öllum málefnum“ flokksins. Þá segir enn fremur um stjórn Viðreisnar að henni beri „að tryggja að öll starfsemi flokksins sé í samræmi við samþykktir hans, stefnuskrá og ályktanir landsþinga.“ Óháð því máli sem til umræðu er kemur hvergi fram að stjórninni sé heimilt að líta svo á að einstakar ályktanir landsþings séu óraunhæfar og fyrir vikið þurfi ekki að fylgja þeim eftir. Hvað þá að lýsa því yfir að þeim verði breytt áður en landsþing hefur fjallað um málið.
Farið gegn samþykktum Viðreisnar
Framganga sem þessi er því miður ekki ný af nálinni þegar forysta Viðreisnar er annars vegar. Haustið 2017 varð Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir til að mynda formaður eftir að forvera hennar og stofnanda flokksins, Benedikt Jóhannessyni, var bolað úr þeirri stöðu. Undir eðlilegum kringumstæðum og í samræmi við reglur Viðreisnar hefði þáverandi varaformaður átt að taka við formennskunni en þess í stað var ráðgjafaráði flokksins falið að gera Þorgerði að formanni án þess að hafa til þess vald samkvæmt samþykktum hans.
Með öðrum orðum var ákveðið að varaformaðurinn, Jóna Sólveig Elínardóttir, ung, efnileg og vel menntuð kona, tæki ekki við formennskunni þvert á samþykktir flokksins sem fyrr segir. Fram kom raunar einnig í samþykktum hans og kemur enn að formaður og varaformaður skuli ekki vera af sama kyni en það var að sama skapi haft að engu svo hægt yrði að gera Þorgerði Katrínu að formanni. Um tveimur mánuðum síðar sagði Jóna Sólveig af sér sem varaformaður Viðreisnar og hætti síðan í kjölfarið afskiptum af stjórnmálum.
Með þessum hætti varð Þorgerður Katrín formaður Viðreisnar. Hún var þannig ekki kjörin í upphafi á landsþingi flokksins í samræmi við samþykktir hans heldur þvert á þær. Varla þarf að koma á óvart í þessu ljósi að forysta Viðreisnar vilji ganga í Evrópusambandið þar sem hvers kyns spilling hefur lengi verið landlæg. Fyrir vikið kom fram í skoðanakönnun fyrir sambandið sem gerð var 2013 að 70% íbúa ríkja sambandsins teldu spillingu þrífast í stofnunum þess. Viðbrögðin í Brussel voru þau að hætta að spyrja spurningarinnar.
Stjórnsýsla Íslands ekki nógu stór
Hvað efnahagsmálin annars áhrærir lét Þorgerður Katrín þau orð falla á haustþingi Viðreisnar í lok september að flokkurinn leggði áherzlu á frjálsan markað, sterkt efnahagskerfi í opnu alþjóðlegu samfélagi og að dregið yrði enn fremur úr umfangi stjórnsýslunnar. Á sama tíma vill Viðreisn sem fyrr segir inngöngu í Evrópusambandið, gamaldags tollabandalag sem stendur efnahagslega vægast sagt afar höllum fæti og sem þýddi að stórauka þyrfti umfang hins opinbera hér á landi. Og það samkvæmt gögnum sambandsins sjálfs.
Tollabandalög snúast einkum um það að vernda framleiðslu innan þeirra gegn utanaðkomandi samkeppni og eru þannig í eðli sínu andstæðan við frjáls milliríkjaviðskipti. Viðskipti innan þeirra eru án tolla en hins vegar allajafna háir tollarmúrar gagnvart öðrum ríkjum. Þá er íþyngjandi regluverki einnig beitt í því skyni. Hvað stjórnsýsluna varðar hefur til að mynda komið fram í gögnum Evrópusambandsins að hérlend stjórnsýsla sé of lítil í sniðum til þess að geta staðið undir þeim miklu skuldbindingum sem fylgja veru innan þess.
Við þetta má síðan til dæmis bæta að vægi ríkja, þegar teknar eru ákvarðanir á vettvangi Evrópusambandsins, fer fyrst og fremst eftir því hversu fjölmenn þau eru. Því fámennari, því minna vægi en innan sambandsins yrði Ísland langfámennasta ríkið. Markmið Viðreisnar er þannig í raun að komast til valda til þess að koma stjórn landsins í hendur einstaklinga sem íslenzkir kjósendur hefðu í raun ekkert yfir að segja en þó í flestum tilfellum embættismanna sem hafa yfir höfuð ekkert lýðræðislegt umboð frá kjósendum.
Hjörtur J. Guðmundsson
sagnfræðingur og alþjóðastjórnmálafræðingur
(Greinin birtist áður í Morgunblaðinu 14. nóvember 2024)
(Ljósmynd: Alþingishúsið. Eigandi: Hjörtur J. Guðmundsson)
Tengt efni:
Verður það sama gert aftur?
Vilja miklu stærra bákn
Hegðaði sér eins og einræðisherra
Við erum á allt öðrum stað
Treystandi fyrir stjórn landsins?