Skip to content

Fullveldi.is

VEFSETUR UM UTANRÍKIS- OG VARNARMÁL

Menu
  • Heim
  • Fréttir
  • Greinar
  • Skýrslur
  • Fullveldi.is
  • English
Menu

„Skynsamlegar umbætur á stjórnarskrá Íslands“

Posted on 04/12/202122/10/2022 by Fullveldi

„Margt brennur meira á íslenzkri þjóð en endurskoðun stjórnarskrárinnar,“ sagði Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, í ávarpi sínu við setningu Alþingis 23. nóvember og ljóst að þau orð voru ekki látin falla að ástæðulausu. Forsetinn sagðist engu að síður vona að hægt yrði á kjörtímabilinu að ráðast í „skynsamlegar umbætur á stjórnarskrá Íslands, rétt eins og henni hefur áður verið breytt í tímans straumi.“

Viðbúið er að ummæli forsetans séu veruleg vonbrigði fyrir þá sem kallað hafa eftir því að stjórnarskránni verði skipt út fyrir aðra í stað þess að gerðar verði nauðsynlegar umbætur á henni. Fátt ef eitthvað bendir hins vegar til þess að víðtækur stuðningur sé í raun við það á meðal þjóðarinnar að umturna grundvallarlöggjöf landsins. Framganga kjósenda í kosningum bendir til að mynda ekki beinlínis til þess.

Hvatt til þess að styðja nýja stjórnarskrá

Fyrir þingkosningarnar í september stóð Stjórnarskrárfélagið fyrir auglýsingaherferð, meðal annars á samfélagsmiðlum og í dagblöðum, þar sem fólk var hvatt til þess að styðja eingöngu þau framboð sem vildu skipta um stjórnarskrá. Þetta átti við um þrjá stjórnmálaflokka; Pírata, Samfylkinguna og Sósíalistaflokkinn. Þá lögðu einkum og sér í lagi Píratar ríka áherzlu á málið í kosningabaráttu sinni.

Formaður þingflokks Pírata, Halldóra Mogensen, lýsti því enn fremur yfir fyrir kosningarnar að flokkur hennar myndi aðeins mynda ríkisstjórn með framboðum sem reiðubúin væru til þess að innleiða nýja stjórnarskrá á kjörtímabilinu sem nú er hafið. Ljóst er að með þeirri yfirlýsingu var enn frekar áréttað að eina leiðin til þess að mögulega yrði skipt um stjórnarskrá væri að styðja framboð hlynnt því markmiði.

Færri atkvæði en Sjálfstæðisflokkurinn einn

Frá því er þó skemmzt að segja að bæði Píratar og Samfylkingin töpuðu fylgi á meðan Sósíalistaflokkurinn náði ekki fulltrúa á þing. Flokkarnir þrír hlutu samanlagt 22,6% fylgi og 45.239 atkvæði og þar með minna fylgi en Sjálfstæðisflokkurinn einn (24,4% og 48.708 atkvæði). Önnur framboð en flokkarnir þrír, sem fengu samanlagt yfir 70% atkvæða, styðja hins vegar umbætur á lýðveldisstjórnarskránni.

Við þetta bætist sögulega lítil þátttaka kjósenda í kosningum sem fjallað hafa sérstaklega um stjórnarskrármálið. Þannig sáu einungis 36,8% kjósenda ástæðu til þess að mæta á kjörstað þegar kosið var til stjórnlagaþings í nóvember 2010 og aðeins 48,4% í ráðgefandi þjóðaratkvæði um tillögur stjórnlagaráðs tveimur árum síðar. Þeir sem síðan lýstu sig hlynnta tillögunum voru einungis tæpur þriðjungur kjósenda.

Skoðanakannanir ekki það sama og kosningar

Flest bendir þannig til þess að hugmyndir um nýja stjórnarskrá eigi í reynd einungis hljómgrunn hjá minnihluta þjóðarinnar og séu enn fremur fyrst og fremst áhugamál tiltölulega afmarkaðs, en um leið háværs, hóps í þjóðfélaginu. Grimmt auglýst undirskriftasöfnun úr röðum þeirra á síðasta ári styður það enn frekar en á fjórum mánuðum söfnuðust færri undirskriftir en þeir sem einungis kjósa Sjálfstæðisflokkinn.

Helzt hefur verið vísað til niðurstaðna skoðanakannana því til stuðnings að meirihluti sé fyrir því að skipta um stjórnarskrá. Hins vegar duga slíkar niðurstöður, sem eru ávallt fyrst og fremst vísbendingar um stöðu mála, vitanlega skammt þegar þær samrýmast ekki raunverulegri framgöngu kjósenda. Þannig dettur varla nokkrum í hug að niðurstöður skoðanakannana eigi að gilda fremur en raunveruleg úrslit kosninga.

Mikilvægi sáttar um stjórnarskrárbreytingar

Til þessa hefur rík áherzla verið lögð á mikilvægi breiðrar samstöðu um stjórnarskrárbreytingar. Fyrst og fremst vegna þeirrar einföldu staðreyndar að um er að ræða grundvallarlöggjöf landsmanna sem sátt þarf að ríkja um en ekki síður vegna þess að ekki er æskilegt að stjórnarskránni sé breytt í sífellu, fram og til baka, eftir því hverjir eru við völd hverju sinni. Þetta hefur Feneyjanefnd Evrópuráðsins meðal annars áréttað.

Mikilvægi breiðrar sáttar er eðli málsins samkvæmt enn ríkara þegar ekki er einungis verið að tala fyrir því að gerðar verði breytingar á stjórnarskránni heldur að henni verði beinlínis skipt út fyrir aðra. Fyrir vikið er skiljanlegt að áhugamenn um það, að tekin verði upp ný stjórnarskrá, hafi ítrekað reynt að draga upp þá mynd að víðtækur stuðningur væri við málið þrátt fyrir að fátt bendi til þess að svo sé í raun.

Var aldrei falið að semja nýja stjórnarskrá

Vert er að lokum að árétta þá staðreynd að hvorki stjórnlagaþingi né arftaka þess stjórnlagaráði var nokkurn tímann falið það verkefni af stjórnvöldum að semja nýja stjórnarskrá heldur einungis að koma með tillögur að breytingum á gildandi stjórnarskrá lýðveldisins samanber þingsályktanir Alþingis sem lágu þar til grundvallar. Með samningu nýrrar stjórnarskrár fór ráðið með öðrum orðum út fyrir heimildir sínar.

Með áherzlu ríkisstjórnarinnar á umbætur á stjórnarskránni í stað þess að umturna henni er þannig ljóst að ekki er aðeins verið að fara rétta leið með tilliti til stjórnskipunar landsins og þeirra samþykkta sem legið hafa til grundvallar allri vinnu við stjórnarskrárbreytingar, þar með töldum störfum stjórnlagaráðs, heldur þá leið sem líklegust er til þess að skapa þá víðtæku sátt sem ávallt er mikilvæg forsenda slíkra breytinga.

Hjörtur J. Guðmundsson
sagnfræðingur og alþjóðastjórnmálafræðingur

(Greinin birtist áður í Morgunblaðinu 4. desember 2021)

(Ljósmynd: Bessastaðir. Eigandi: Hjörtur J. Guðmundsson)


Tengt efni:
Var aldrei falið að semja nýja stjórnarskrá

HELZTU GREINAR


Meginvandinn er sjálft regluverkið

Talsvert hefur verið rætt á undanförnum árum um svonefnda gullhúðun við innleiðingu á lagagerðum frá Evrópusambandinu í gegnum aðild Íslands að EES-samningnum. Er þar vísað til þess þegar gerðir eru innleiddar hér á landi meira íþyngjandi en þær koma frá sambandinu. Um er að ræða mál sem full ástæða er til þess að taka föstum tökum en á sama tíma er ljóst að ekki er um að ræða meginvandann í þeim efnum.



Málstaður sem skilar ekki auknu fylgi

Fylgi Samfylkingarinnar hefur tvöfaldast frá þingkosningunum sem fram fóru fyrir rúmu ári síðan samkvæmt niðurstöðum skoðanakannana í kjölfar þess að nýr formaður, Kristrún Frostadóttir, tók við flokknum. Fylgið hefur þannig farið úr tæpum 10% í kosningunum í um 20%. Kannanir benda til þess að þar vegi þungt ákvörðun formannsins um það að setja stefnu flokksins um inngöngu í Evrópusambandið á ís.



Með hálfan þingmann á Alþingi

Vægi ríkja innan Evrópusambandsins, og þar með möguleikar þeirra á því að hafa áhrif innan sambandsins, fer fyrst og fremst eftir íbúafjölda þeirra. Því fámennari sem ríkin eru því minni möguleika eiga þau almennt á því að hafa áhrif á ákvarðanatöku stofnana Evrópusambandsins þar sem þau eiga fulltrúa. Kæmi til þess að Ísland gengi í sambandið yrði landið fámennasta ríki þess og með vægi í samræmi við það.


Færslur

  • Minna svigrúm til viðskiptasamninga
  • Dvínandi eða vaxandi?
  • Dvínandi stuðningur við inngöngu í ESB
  • Flotið vakandi að feigðarósi
  • Tvennt hægt að gera við tillögurnar
  • Meginvandinn er sjálft regluverkið
  • Málstaður sem skilar ekki auknu fylgi
  • „Við værum í vandræðum án Bandaríkjanna“
  • Með hálfan þingmann á Alþingi
  • Frelsið til þess að ráða eigin málum
  • Hlutleysi veitir enga vörn
  • Verður ríkisábyrgð sett á þúsund milljarða?
  • Viðreisn og báknið
  • Setur Viðreisn í vanda
  • Treysta ekki ESB í varnarmálum
  • Dönsk stjórnarskrá?
  • Hindrar EES fríverzlun við Bandaríkin?
  • Hverju ætti ESB að bæta við?
  • Pólitíski ómöguleikinn
  • Að virða niðurstöður kosninga
©2023 Fullveldi.is | Built using WordPress and Responsive Blogily theme by Superb