Meirihluti þjóðarinnar vill ekki nýja stjórnarskrá. Þetta er á meðal þess sem fram kemur í færslu sem Njörður P. Njarðvík, prófessor emeritus, ritaði á facebooksíðu sína daginn eftir þingkosningarnar í lok september en Njörður hefur verið ötull talsmaður þess að skipt verði um stjórnarskrá í landinu. Lýstu ýmsir þeir, sem verið hafa fremstir í flokki þeirra sem hafa kallað eftir nýrri stjórnarskrá, yfir stuðningi við skrifin.
„Þetta vill meirihluti þjóðarinnar!“ segir í lok færslu Njarðar í kjölfar upptalningar á því sem úrslit kosninganna hefðu falið í sér að hans mati. Þar á meðal enga nýja stjórnarskrá. Stjórnmálaflokkar sem hlynntir eru því að skipta um stjórnarskrá, Píratar, Samfylkingin og Sósíalistaflokkurinn, fengu samanlagt einungis 22,6% fylgi eða minna en Sjálfstæðisflokkurinn einn þrátt fyrir að Stjórnarskrárfélagið hafi til að mynda hvatt kjósendur með auglýsingaherferð í aðdraganda kosninganna til þess að styðja aðeins slík framboð.
Katrín og Birgitta tóku undir orð Njarðar
Fjölmargir tóku undir færslu Njarðar og þar á meðal Katrín Oddsdóttir, formaður Stjórnarskrárfélagsins, og Birgitta Jónsdóttir, fyrrverandi þingmaður Pírata, sem verið hafa fremstar í flokki þeirra sem kallað hafa eftir því að stjórnarskrá lýðveldisins verði skipt úr fyrir aðra byggðri á tillögum stjórnlagaráðs.
Talsmenn nýrrar stjórnarskrár hafa lengi haldið því fram að um væri að ræða kröfu þjóðarinnar og sakað Alþingi, sem kjósendur notabene velja og nú síðast í september, um svik við þann málstað með vísan í ráðgefandi þjóðaratkvæði árið 2012 um tillögur stjórnlagaráðs að nýrri stjórnarskrá. Ítrekuð framganga meirihluta kjósenda í þingkosningum, þar á meðal og ekki hvað sízt í kosningunum 2013 sem fram fóru einungis hálfu ári eftir þjóðaratkvæðið, bendir hins vegar alls ekki til þess að hann upplifi sig svikinn.
Flokkarnir sem börðust gegn nýrri stjórnarskrá, Sjálfstæðisflokkurinn og Framsóknarflokkurinn, fengu þannig meirihluta þingsæta í þingkosningum 2013 á meðan flokkar hlynntir því markmiði riðu ekki feitum hesti frá þeim. Þá hefur fylgi við flokka sem vilja nýja stjórnarskrá allajafna farið minnkandi síðan.
Hjörtur J. Guðmundsson
sagnfræðingur og alþjóðastjórnmálafræðingur
(Ljósmynd: Alþingishúsið. Eigandi: Ypsilon from Finland)
—
Tengt efni:
„Skynsamlegar umbætur á stjórnarskrá Íslands“
Var aldrei falið að semja nýja stjórnarskrá