„Við stöndum á ákveðnum tímamótum í samskiptum okkar við Evrópusambandið,“ sagði Styrmir Gunnarsson, fyrrverandi ritstjóri Morgunblaðsins, í ræðu á fjölmennum fundi í Valhöll, höfuðstöðvum Sjálfstæðisflokksins, 30. ágúst 2018 þar sem hann hafði uppi þung varnaðarorð varðandi aðild Íslands að EES-samningnum og með hvaða hætti hann hefði þróast. „Frá því að EES-samningurinn var gerður fyrir aldarfjórðungi hefur Evrópusambandið þróast á þann veg að það koma upp stöðugt áleitnari álitamál um hversu langt við getum gengið í þessu samstarfi án þess að við afsölum sjálfstæði okkar í smápörtum hér og þar til Brussel.“
Tímabært væri fyrir sjálfstæðismenn, sem gætu verið stoltir af sögu Sjálfstæðisflokksins og forystuhlutverki hans í lokaáfanga sjálfstæðisbaráttu þjóðarinnar og síðar í þorskastríðunum, að staldra við og spyrja sig á hvaða leið flokkurinn væri þegar kæmi að sjálfstæði landsins í ljósi sífellt meiri krafna frá Evrópusambandinu um aukið framsal valds yfir íslenzkum málum í gegnum aðild Íslands að EES-samningnum. Spurði Styrmir fundarmenn hvort það ætti að vera hlutverk og hlutskipti Sjálfstæðisflokksins, sem ætti sér svo merka sögu í baráttu fyrir fullveldi þjóðarinnar, að leiða þjóðina smám saman undir vald sambandsins.
Valdaframsali til ESB hafnað
Styrmir gagnrýndi harðlega þann málflutning stjórnvalda, ekki sízt í röðum forystumanna Sjálfstæðisflokksins, að Íslendingar ættu ekki annarra kosta völ en að samþykkja kröfur Evrópusambandsins um sífellt meira framsal valds yfir íslenzkum málum í gegnum aðildina að EES-samningnum. „Ef það er rétt að við eigum ekki annarra kosta völ er tímabært að stöðva við og endurskoða EES-samninginn allan. Landsfundir Sjálfstæðisflokksins eru æðsta vald í málefnum þessa flokks. Það hefur aldrei verið samþykkt að við afsölum okkur fullveldi okkar smátt og smátt og jafnt og þétt.“ Þvert á móti hefði slíku valdaframsali verið hafnað.
„Við skulum heiðra minningu þeirra sem á undan okkur hafa gengið í þessum flokki. Við skulum gæta vel að sögunni og pólitískri arfleifð þeirra og við verðum að vera sem fyrr merkisberar íslenzks sjálfstæðis,“ sagði Styrmir enn fremur. Beindi hann í lok ræðunnar orðum sínum til forystu Sjálfstæðisflokksins og varaði hana við afleiðingum þess ef haldið yrði áfram á þeirri vegferð að framselja sífellt meira vald í gegnum EES-samninginn: „Gætið að ykkur. Sá þráður í sálarlífi þessa flokks sem snýr að fullveldi og sjálfstæði er mjög sterkur. Flokkurinn virðist hafa misst varanlega um þriðjung af sínu fylgi. Hann má ekki við meiru.“
„Þetta er orðið eitthvað of mikið“
Fleiri framámenn í Sjálfstæðisflokknum hafa að sama skapi haft uppi varnaðarorð á undanförnum árum vegna þess hvernig EES-samningurinn hefur verið að þróast. Þar á meðal Brynjar Níelsson, fyrrverandi þingmaður flokksins, sem sagði þannig til að mynda í þættinum Þingvöllum á útvarpsstöðinni K100 11. nóvember 2018: „Þetta er vandinn við þennan samning [EES]. Það sem gerist alltaf er að það er alltaf gengið lengra og lengra. Framsalið á valdinu verður alltaf meira og meira. Þá er spurningin: Eigum við alltaf að teygja okkur lengra í þessa átt eða eigum við að spyrna niður fæti og segja: „Þetta er orðið eitthvað of mikið“?“
„Mér finnst ég gera lítið annað á þinginu en að innleiða einhverjar reglur frá Evrópusambandinu,“ sagði Brynjar enn fremur í Bítinu á Bylgjunni 3. febrúar 2014. Fæstir þingmenn vissu sennilega í raun hvað þeir væru að samþykkja þegar regluverk frá sambandinu væri annars vegar. Skilaboðin væru einfaldlega þau að þetta ætti að samþykkja. Aðgöngumiðinn að innri markaði Evrópusambandsins í gegnum samninginn væri orðinn rándýr. „Það eru alls konar hlutir í þessum samningi sem ég hef aldrei skilið af hverju við þurfum að fara eftir regluverki þeirra [ESB] með. Mér finnst það ekki einu sinni tengjast þessum innri markaði í raun.“
Hvað gerir Bjarni við bókun 35?
„Ég vil vera alveg skýr varðandi kröfuna um að við framseljum vald til stofnana sem við eigum ekki aðild að, það megum við aldrei gera,“ sagði Bjarni Benediktsson, utanríkisráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, á Alþingi 6. febrúar 2018. Það væri hins vegar í grunninn það sem Evrópusambandið væri að fara fram á „í litlum hænufetsskrefum“ í tengslum við EES-samninginn. „Ef þetta fer að verða æ algengara, eins og mér sýnist, að Evrópusambandið setji fram skýlausa kröfu um að EFTA-ríkin undirgangist boðvald Evrópusambandsstofnana sem við eigum ekki aðild að þá kallar það á viðbrögð, það hlýtur að gera það.“
Kröfur um framsal valds til Evrópusambandsins í gegnum EES-samninginn, bæði óbeint í gegnum EFTA-stoð hans en í vaxandi mæli beint, hafa haldið áfram að færast í aukana frá því að áðurnefnd orð Bjarna voru látin falla samhliða því sem stjórnvöld hafa látið undan þeim. Nú síðast krafa kennd við bókun 35 við EES-samninginn þess efnis að innleitt regluverk frá sambandinu, bæði hingað til og framvegis, gangi framar innlendri lagasetningu, mál sem nú er á borði hans sem utanríkisráðherra. Vafalítið fylgjast fjölmargir sjálfstæðismenn grannt með því með hvaða hætti haldið verði á því máli af hálfu formanns Sjálfstæðisflokksins.
Hjörtur J. Guðmundsson
sagnfræðingur og alþjóðastjórnmálafræðingur
(Greinin birtist áður í Morgunblaðinu 24. október 2023)
(Ljósmynd: Merki Sjálfstæðisflokksins. Eigandi: Hjörtur J. Guðmundsson)
Tengt efni:
Flóknara en góðu hófi gegnir
Fjarar undan tveggja stoða kerfinu
Fullkomin uppgjöf
Meirihluti íþyngjandi löggjafar í gegnum EES
Vissulega lítið vit í slíkum samningi