Mikilvægt er að einfalda regluverk um fjármálamarkaði hér á landi með það að markmiði að gera það skilvirkara og skiljanlegra. Þetta er á meðal þess sem fram kom í máli Yngva Arnar Kristinssonar, hagfræðings Samtaka fjármálafyrirtækja, í viðtali í ViðskiptaMogganum á dögunum. Sagði hann regluverkið, sem teldi tugþúsundir blaðsíðna af tilskipunum, lögum, reglugerðum og tilmælum, að mörgu leyti orðið of viðamikið.
Fyrst og fremst er þar um að ræða regluverk frá Evrópusambandinu sem tekið hefur verið upp hér á landi vegna aðildar Íslands að EES-samningnum. Vísaði Yngvi til gagnrýni Jespers Berg, forstjóra danska fjármálaeftirlitsins, sem sagði við Financial Times í lok árs 2021 að regluverkið væri orðið svo umfangsmikið að sú hætta væri fyrir hendi að eftirlitsaðilar týndust í smáatriðum í stað þess að bregðast við raunverulegum áhættum.
Fram kom enn fremur í máli Bergs að þrátt fyrir hundruð starfsmanna gæti danska fjármálaeftirlitið ekki bæði haft umsjón með innleiðingu á flóknu regluverki frá Evrópusambandinu og staðið fullnægjandi vörð um fjármálakerfið. Rætt var einnig við Morten Baltzersen, forstjóra fjármálaeftirlits Noregs, sem tók í sama streng. Flækjustigið í regluverki sambandsins stæði eftirlitsaðilum einfaldlega fyrir þrifum í störfum sínum.
Regluverkið komið út í öfgar
„Ég er sammála kollegum mínum að miklu leyti. Sennilega er komið að þeim tímapunkti að regluverkið sé orðið flóknara en góðu hófi gegnir. Þegar regluverkið er komið út í öfgar er hætta á því að það þjóni ekki þeim markmiðum sem að er stefnt,“ sagði Unnur Gunnarsdóttir, þáverandi varaseðlabankastjóri Fjármálaeftirlits Seðlabanka Íslands, í samtali við Innherja innt eftir viðbrögðum við gagnrýni Bergs og Baltzersens.
„Ég held að það sé ógerningur fyrir fólk sem vinnur ekki við þetta að gera sér í hugarlund hversu umfangsmikið og flókið regluverkið er orðið,“ sagði Unnur enn fremur. Regluverk fyrir banka, vátryggingastarfsemi og verðbréfamarkaðinn væri orðið of fyrirferðarmikið en það ætti hins vegar ekki við um öll svið fjármálakerfisins. Til að mynda ekki regluverk sem gilti um starfsemi lífeyrissjóðanna enda væri það innlend smíði.
Hliðstæð gagnrýni kom fram í máli Lilju Bjarkar Einarsdóttur, bankastjóra Landsbankans, í Dagmálum á mbl.is í ágúst á síðasta ári þar sem hún sagði að eftirlitskröfur, sem rekja mætti til regluverks frá Evrópusambandinu í gegnum EES-samninginn, þýddu að sífellt meiri vinna færi í skriffinnsku vegna þeirra. Virkt eftirlit væri mikilvægt en að það mætti þó ekki verða svo íþyngjandi að starfsfólk horfði aðallega í baksýnisspegilinn.
Dragbítur á íslenzkt atvinnulíf
Við þetta má bæta að fram kemur í skýrslu sem unnin var af ráðgjafarnefnd um opinberar eftirlitsreglur árið 2016 að mikill meirihluti lagafrumvarpa, sem samþykkt voru á Alþingi á árunum 2013-2016 og höfðu íþyngjandi áhrif á atvinnulífið, hafi falið í sér innleiðingu á regluverki frá Evrópusambandinu en nefndin var meðal annars skipuð fulltrúum frá Viðskiptaráði, Samtökum atvinnulífsins og Alþýðusambandi Íslands auk stjórnvalda.
Vert er að leggja við hlustir þegar ekki einungis fulltrúar atvinnulífsins kvarta undan sífellt meira íþyngjandi regluverki frá Evrópusambandinu í gegnum EES-samninginn, sem eitt og sér ætti að vera nægt tilefni til þess að staldra við og íhuga á hvaða leið Ísland sé í þeim efnum, heldur einnig fulltrúar stjórnsýslunnar. Margt er einfaldlega til marks um það að samningurinn sé í vaxandi mæli orðinn dragbítur á íslenzkt atvinnulíf.
Hins vegar er leið út úr þessum aðstæðum sem ríki heimsins kjósa allajafna að fara þegar þau semja um milliríkjaviðskipti og þar á meðal stærstu efnahagsveldin með sína umfangsmiklu viðskiptahagsmuni. Þar með talið Evrópusambandið. Nútímalegur víðtækur fríverzlunarsamningur. Leið sem, ólíkt EES-samningnum, felur hvorki í sér einhliða upptöku íþyngjandi regluverks né vaxandi framsal valds yfir eigin málum.
Hjörtur J. Guðmundsson
sagnfræðingur og alþjóðastjórnmálafræðingur
(Greinin birtist áður í Morgunblaðinu 12. október 2023)
(Ljósmynd: Fáni Evrópusambandsins. Eigandi: Hjörtur J. Guðmundsson)
Tengt efni:
Fjarar undan tveggja stoða kerfinu
Fullkomin uppgjöf
Meirihluti íþyngjandi löggjafar í gegnum EES
Vissulega lítið vit í slíkum samningi
Meira en heildartekjur ríkissjóðs