Skip to content

Fullveldi.is

VEFSETUR UM UTANRÍKIS- OG VARNARMÁL

Menu
  • Heim
  • Greinar
  • Skýrslur
  • Fullveldi.is
  • English
Menu

Tvennt hægt að gera við tillögurnar

Posted on 15/01/202316/01/2023 by Fullveldi

Mikilvægt er að halda því grundvallaratriði til haga, í umræðum um stjórnarskrármál Íslands, að stjórnlagaráði var aldrei falið það verkefni af stjórnvöldum að semja nýja stjórnarskrá. Til þess hafði ráðið einfaldlega ekkert umboð. Stjórnlagaráði var þannig einungis falið að „gera tillögur um breytingar á stjórnarskrá lýðveldisins Íslands“ eins og fram kemur í þingsályktun Alþingis um skipun ráðsins.

Vert er einnig að hafa í huga að tekið var skýrt fram í kynningarbæklingi, sem sendur var á hvert heimili í landinu í aðdraganda ráðgefandi þjóðaratkvæðis um tillögur stjórnlagaráðs sem fram fór haustið 2012, að Alþingi hefði síðasta orðið í samræmi við stjórnskipun landsins um það hvort og þá að hve miklu leyti tillögurnar yrðu nýttar við endurskoðun á stjórnarskránni. Hið sama kom fram á kjörseðlinum:

„Stjórnarskrá er breytt þannig að frumvarp er lagt fram á Alþingi. Það er rætt við þrjár umræður og getur tekið breytingum í meðförum þingsins. Verði frumvarpið samþykkt skal rjúfa Alþingi og kjósa nýtt þing. Frumvarpið er þá lagt fram að nýju og samþykki Alþingi það óbreytt taka breytingarnar gildi að fenginni staðfestingu forseta.“ Lykilatriðið hér er vitanlega orðalagið „verði frumvarpið samþykkt“.

„Falið ráðgefandi hlutverk við Alþingi“

Farið var yfir það í kynningarbæklingnum með greinargóðum hætti að stjórnlagaráði hefði einungis verið „falið ráðgefandi hlutverk við Alþingi“ eins og kæmi fram í greinargerð með þingsályktunartillögunni um skipun ráðsins. Þjóðaratkvæðið væri að sama skapi einungis ráðgefandi enda væri þinginu óheimilt samkvæmt stjórnarskránni að framselja lagasetningarvald sitt með bindandi hætti.

Hér kemur einnig við sögu ákvæði stjórnarskrárinnar um að þingmenn séu einungis bundnir af sannfæringu sinni og ekki neinum reglum frá kjósendum. Nokkuð sem einnig er að finna í tillögum stjórnlagaráðs. Fullyrðingar um að Alþingi ráði ekki við stjórnarskrárbreytingar eru óneitanlega nokkuð sérstakar í ljósi þess að í tillögum ráðsins er gert ráð fyrir því að þingið gegni lykilhlutverki við slíkar breytingar.

Færa má þannig gild rök fyrir því að niðurstöðu þjóðaratkvæðisins hafi þegar verið hrint í framkvæmd. Þannig var samþykkt í því að tillögur stjórnlagaráðs yrðu „lagðar til grundvallar frumvarpi að nýrri stjórnarskrá“ sem var og gert. Hins vegar náði frumvarpið einfaldlega ekki fram að ganga enda síðasta orðið hjá Alþingi í þeim efnum líkt og áréttað var bæði í kynningarbæklingnum og á kjörseðlinum.

Kjósendur upplýstir um leikreglurnar

Fyrir vikið er alveg ljóst á hvaða forsendum þjóðaratkvæðagreiðslan fór fram. Kjósendur voru fyllilega upplýstir um það hvaða leikreglur giltu um framhald málsins og í ljósi þess greiddu þeir atkvæði sín. Niðurstaðan varð sú að innan við helmingur kjósenda á kjörskrá sá ástæðu til þess að mæta á kjörstað og um þriðjungur þeirra lýsti sig hlynntan því að frumvarp yrði lagt fram byggt á tillögum stjórnlagaráðs.

Tal um það að kjósendur hafi verið sviknir stenzt þannig enga skoðun. Ekki verður heldur séð að kjósendur sjálfir telji sig svikna. Fjórum sinnum hefur til að mynda verið kosið til Alþingis frá því að ráðgefandi þjóðaratkvæðið fór fram og fengu framboð hlynnt því að skipta um stjórnarskrá mest um þriðjung atkvæða í kosningunum 2013 og í þeim síðustu, haustið 2021, minna fylgi en Sjálfstæðisflokkurinn einn.

Tvennt er hægt að gera við tillögur stjórnlagaráðs með tilliti til umboðs ráðsins og þeirra forsendna sem lágu til grundvallar ráðgefandi þjóðaratkvæðinu. Annað hvort að líta á tillögurnar eins og þær voru alltaf hugsaðar, sem innlegg í þá vinnu að gera breytingar á stjórnarskránni þar sem þess sé talin þörf, eða að hafa þær einfaldlega að engu í ljósi þess að umrædd vinna var ekki í samræmi við umboð ráðsins.

Hjörtur J. Guðmundsson
sagnfræðingur og alþjóðastjórnmálafræðingur

(Greinin birtist áður á Vísir.is 15. janúar 2023)

(Ljósmynd: Stjórnarskrá Íslands. Eigandi: Hjörtur J. Guðmundsson)


Tengt efni:
Dönsk stjórnarskrá?
Að virða niðurstöður kosninga
„Þetta vill meirihluti þjóðarinnar!“
„Skynsamlegar umbætur á stjórnarskrá Íslands“
Var aldrei falið að semja nýja stjórnarskrá

HELZTU GREINAR


Meira en heildartekjur ríkissjóðs

Tryggðar innistæður í fjármálastofnunum á Íslandi námu 1.228 milljörðum króna um síðustu áramót samkvæmt upplýsingum frá Tryggingasjóði vegna fjármálafyrirtækja (TVF) og jukust þær um eitt hundrað milljarða á síðasta ári. Komi til þess að ný tilskipun Evrópusambandsins um innistæðutryggingar verði innleidd á Íslandi vegna EES-samningsins mun það að öllum líkindum þýða ríkisábyrgð á tryggðum innistæðum.



Versnandi staða fámennari ríkja ESB

Meðal þeirra breytinga sem orðið hafa á Evrópusambandinu á undanförnum árum er að vægi fámennari ríkja sambandsins við ákvarðanatökur í ráðherraráði þess hefur minnkað stórlega. Einkum þeirra fámennustu. Krafa um einróma samþykki í ráðinu heyrir þannig í raun til algerra undantekninga í dag ólíkt því sem áður var og þess í stað er miðað við meirihlutasamþykki þar sem vægi ríkjanna fer fyrst og fremst eftir því hversu fjölmenn þau eru. Hvort tveggja hefur eðli málsins samkvæmt komið sér verst fyrir fámennustu ríkin.



Minna svigrúm til viðskiptasamninga

Með aðild Íslands að EES-samningnum hefur regluverk frá Evrópusambandinu, sem tekið hefur verið upp í gegnum samninginn, skapað viðskiptahindranir gagnvart nánustu viðskiptalöndum landsins utan Evrópskra efnahagssvæðisins (EES) og stuðlað að minna svigrúmi EFTA-ríkjanna sem aðild eiga að samningnum, Íslands, Noregs og Liechtensteins, til þess að semja um viðskipti við ríki utan svæðisins.


Færslur

  • Vissulega lítið vit í slíkum samningi
  • Hver á að framkvæma stefnu Viðreisnar?
  • „Þið vitið fullkomlega hvað er í pakkanum“
  • Minnast ekki á lokamarkmiðið
  • Fátt bendir til norskrar inngöngu í ESB
  • Meira en heildartekjur ríkissjóðs
  • Þegar raunveruleikinn hentar ekki
  • Versnandi staða fámennari ríkja ESB
  • Minna svigrúm til viðskiptasamninga
  • Dvínandi eða vaxandi?
  • Dvínandi stuðningur við inngöngu í ESB
  • Flotið vakandi að feigðarósi
  • Tvennt hægt að gera við tillögurnar
  • Meginvandinn er sjálft regluverkið
  • Málstaður sem skilar ekki auknu fylgi
  • „Við værum í vandræðum án Bandaríkjanna“
  • Með hálfan þingmann á Alþingi
  • Frelsið til þess að ráða eigin málum
  • Hlutleysi veitir enga vörn
  • Verður ríkisábyrgð sett á þúsund milljarða?
©2023 Fullveldi.is | Built using WordPress and Responsive Blogily theme by Superb