Fyrir rúmum sex árum síðan fann Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar, sig knúna til þess að að rita grein á Kjarnann til þess að koma á framfæri áhyggjum sínum af því að víglínan í umræðum um Evrópumálin hér á landi væri að færast. Frá því að hverfast um það hvort Ísland ætti að ganga í Evrópusambandið yfir í það að snúast um það hvort æskilegt væri fyrir landið að vera áfram aðili að EES-samningnum.
Forystumenn Viðreisnar snúast iðulega til varnar þegar EES-samningurinn er gagnrýndur út frá sjónarhóli fullveldisins. Það er að segja að tímabært sé að skipta honum út fyrir víðtækan fríverzlunarsamning eins og ríki heimsins kjósa allajafna að semja um sín á milli í dag. Hafa má í huga í því sambandi að við höfum þegar skipt EES-samningnum út fyrir fríverzlunarsamning í tilfelli Bretlands án þess að neitt færi á hliðina.
Verði aldrei minna undir vald ESB sett
Mjög skiljanlegt er að stuðningsmenn inngöngu í Evrópusambandið vilji ógjarnan vera settir í þá stöðu að þurfa að eyða tíma sínum og orku í það að verja aðildina að EES-samningnum í stað þess að geta einbeitt sér alfarið að því að vinna að því markmiði sínu að Íslendingar gangi í sambandið. Eðlilega vilja þeir geta treyst því að Ísland muni aldrei verða minna undir vald Evrópusambandsins sett en sem nemur samningnum.
Markmiðið er ljóslega um leið að fá andstæðinga inngöngu Íslands í Evrópusambandið til þess að sjá um það að verja aðildina að EES-samningnum svo stuðningsmenn þess að gengið verði í sambandið geti einbeitt sér að því að gagnrýna hann á sínum forsendum. Það er að segja að ekki sé gengið nógu langt undir vald stofnana Evrópusambandsins með samningnum og fyrir vikið þurfi að fara alla leið í þeim efnum.
Undirbúningur fyrir inngöngu í ESB
Stundum hefur það sjónarmið heyrzt að gagnrýni á EES-samninginn á forsendum fullveldisins sé greiði við þá sem vilja Ísland í Evrópusambandið. Ef sá málflutningur stæðist myndu Evrópusambandssinnar væntanlega taka allri gagnrýni á samninginn fagnandi. Sú hefur hins vegar engan veginn verið raunin sem aftur er til marks um það að þeir telji þvert á móti að það myndi skaða málstað þeirra ef hans nyti ekki lengur við.
Hafa má í huga í þessu sambandi að EES-samningurinn var frá upphafi hugsaður af bæði Evrópusambandinu og stuðningsmönnum inngöngu Íslands í það sem undirbúningur fyrir inngöngu í sambandið. Um þetta hafa ófáir fræðimenn fjallað og vísað í haldbærar heimildir fyrir því. Ekki sízt úr fórum Evrópusambandsins. Með þessum hætti hefur samningurinn að sama skapi almennt virkað í vaxandi mæli allar götur síðan.
Meira framsal valds til stofnana ESB
Full ástæða er þannig til þess að ræða það með gagnrýnum hætti hvort rétt sé fyrir Íslendinga að vera áfram aðilar að EES-samningnum. Ekki sízt þar sem aðildin að honum krefst stöðugt meira framsals valds til stofnana Evrópusambandsins, annað hvort óbeint en í vaxandi mæli beint, og upptöku sífellt meira af íþyngjandi og kostnaðarsömu regluverki sem skapar hindranir í viðskiptum við ríki utan sambandsins.
Valið stendur þannig í raun ekki lengur á milli aðildar að EES-samningnum og inngöngu í Evrópusambandið, þar sem munurinn þar á milli fer minnkandi þó enn sé hann verulegur, samhliða því sem fleiri mál sem heyra undir sambandið eru felld undir gildissvið samningsins, heldur í vaxandi mæli á milli aðildar að EES-samningnum eða inngöngu í Evrópusambandið annars vegar og víðtæks fríverzlunarsamnings hins vegar.
Hjörtur J. Guðmundsson
sagnfræðingur og alþjóðastjórnmálafræðingur
(Greinin birtist áður í Morgunblaðinu 15. apríl 2024)
(Ljósmynd: Alþingishúsið. Eigandi: Hjörtur J. Guðmundsson)
Tengt efni:
Mótleikur ESB vegna Icesave-málsins
Drögumst aftur úr vegna EES
Höfum aldrei notið fulls tollfrelsis
Með of mikil völd
Vilja fríverzlunarsamning í stað EES