Mikilvægt er að virk umræða eigi sér stað um varnarhagsmuni Íslands enda um að ræða málaflokk sem varðar grundvallaröryggi lands og þjóðar. Frá því skömmu eftir lok síðari heimsstyrjaldarinnar hefur varnarstefna Íslands byggst á tveimur stoðum. Annars vegar aðild landsins að NATO, varnarsamstarfi vestrænna ríkja, og hins vegar tvíhliða varnarsamningi við Bandaríkin. Áður hafði áherzlan verið á hlutleysi.
Hins vegar ráku íslenzk stjórnvöld sig á þann veruleika í síðari heimsstyrjöldinni líkt og flest önnur Evrópuríki að hlutleysi veitir enga vörn. Þá einkum vegna þeirrar staðreyndar að hlutleysisstefna er alfarið háð því að stríðandi aðilar virði hana sem sagan sýnir að hefur því miður sjaldnast verið raunin. Hlutleysisstefnan beið í raun algert skipbrot í heimsstyrjöldinni og hefur þróun mála síðan þá ekki breytt þeim veruleika.
Flest ríki Evrópu lýstu yfir hlutleysi í aðdraganda síðari heimsstyrjaldarinnar og þar á meðal öll Norðurlöndin. Hlutleysi þeirra var hins vegar í flestum tilfellum fótum troðið. Þeim ríkjum sem náðu að viðhalda hlutleysi sínu, að minnsta kosti að nafninu til, tókst það fyrst og fremst vegna þess að landfræðileg lega þeirra er með þeim hætti að stríðsaðilarnir töldu ekki hernaðarlegar forsendur fyrir því að hernema þau.
Talsvert öðru máli gegndi hins vegar um Ísland þar sem landfræðileg lega landsins á Norður-Atlantshafinu fól í sér hernaðarlegt mikilvægi og gerir enn. Kæmi til átaka í okkar heimshluta geta fyrir vikið talizt litlar sem engar líkur á því að Ísland gæti staðið fyrir utan þau. Stríðandi aðilar gætu einfaldlega ekki tekið þá áhættu að landið félli mögulega í óvinahendur sem væru þar með í lykilstöðu á Norður-Atlantshafinu.
„Værum í vandræðum án Bandaríkjanna“
Með aðildinni að NATO og varnarsamningnum við Bandaríkin er varnarmálum Íslands eins vel fyrir komið og frekast er unnt þegar kemur að varnarsamstarfi við önnur vestræn ríki. Þannig er meirihluti Evrópuríkja í NATO auk Kanada og Bandaríkjanna. Einungis fjögur ríki Evrópusambandsins af 27 standa fyrir utan NATO, Austurríki, Írland, Malta og Kýpur, sem eiga það sameiginlegt að búa yfir takmarkaðri varnargetu.
„Ég verð að vera algerlega hreinskilin við ykkur, Evrópusambandið er ekki nógu sterkt eins og staðan er í dag. Við værum í vandræðum án Bandaríkjanna,“ sagði Sanna Marin, þáverandi forsætisráðherra Finnlands, á fundi á vegum Lowy Institute í Sydney í Ástralíu í byrjun desember 2022. Þannig hefði sambandið ekki haft burði til þess að bregðast sem skyldi við innrásinni í Úkraínu og þurft að treysta á Bandaríkjamenn.
Mánuði áður hafði Pekka Haavisto, þáverandi utanríkisráðherra Finnlands, sagt á ráðstefnu NATO-þingsins í Helsinki, höfuðborg landsins, að finnsk stjórnvöld hefðu sótt um aðild að NATO þar sem ekki væri hægt að treysta á Evrópusambandið í varnarmálum. Undir þetta tók fulltrúi sænskra stjórnvalda á ráðstefnunni. Svíar hefðu einnig sótt um aðild að NATO þar sem þeir hefðu ekki getað stólað á sambandið.
Forystumenn Evrópusambandsins hafa þess utan viðurkennt að hafa með miklum kaupum á rússneskri olíu og gasi fjármagnað hernaðaruppbyggingu stjórnvalda í Rússlandi og í framhaldinu hernaðaraðgerðir þeirra í Úkraínu. Til að mynda Josep Borrell, utanríkismálastjóri sambandsins, í ræðu sem hann flutti á þingi þess í marz 2022. Þrátt fyrir varnaðarorð hefði ekki verið dregið úr kaupunum heldur þvert á móti.
Tímafrekt að bæta fyrir vanræksluna
Fram kom í grein eftir dr. Jonathan Eyal, hjá brezku hugveitunni RUSI, í dagblaðinu Guardian sumarið 2022 að þó Svíþjóð og Finnland hefðu í orðni kveðnu notið öryggistryggingar í gegnum veru landanna í Evrópusambandinu hefðu þau engu að síður sótt um aðild að NATO „þar sem þau gerðu sér grein fyrir muninum á milli löngunar sambandsins og getu bandalagsins studdri af hernaðarmætti Bandaríkjanna.“
Fyrir liggur að Bandaríkin eru eina vestræna ríkið sem hefur burði til þess að verja sjálfs sig og aðra. Önnur vestræn ríki hafa í flestum tilfellum varla burði til þess að verja sjálf sig og hvað þá aðra og leggja fyrir vikið traust sitt á Bandaríkjamenn. Samanber til að mynda áðurnefnd ummæli Sönnu Marin. Það á bæði við um fjölmenn og fámenn Evrópuríki. Einkum vegna þess að þau hafa lengi vanrækt eigin varnarmál.
Fjölmörg ríki innan NATO hafa í kjölfar innrásar rússneska hersins í Úkraínu lýst því yfir að þau ætli loksins að taka sig saman í andlitinu þegar kemur að varnarmálum. Þær yfirlýsingar eru vissulega af hinu góða en orð eru þó auðvitað eitt og athafnir annað. Þá liggur fyrir að taka mun mörg ár að vinna upp vanrækslu liðnna ára og áratuga. Þá ekki sízt í tilfelli Þýzkalands, öfugasta hagkerfis Evrópusambandsins.
Vangaveltur um norrænan her sem sumir hafa haft uppi í umræðunni eru sama marki brennd fyrir utan stjórnskipuleg álitamál. Vörnum Íslands yrði þannig seint forgangsraðað. Bæði vegna mjög takmarkaðrar hernaðarlegrar getu eftir sem áður og hve landfræðilega ólík staða Íslands er og hinna Norðurlandanna. Varnir þeirra yrðu alltaf álitnar mikilvægari og áherzlan fyrir vikið fyrst og fremst á þær.
Varnarlið eðlilegur hluti umræðunnar
Varnarhagsmunum Íslands er sem fyrr segir eins vel fyrir komið og frekast er unnt með aðildinni að NATO og varnarsamningnum við Bandaríkin þegar að varnarsamstarfi við önnur vestræn ríki kemur. Það sem helzt vantar upp á þegar kemur að vörnum landsins er að við Íslendingar öxlum meiri ábyrgð á okkar eigin varnarmálum. Meðal annars er mikilvægt í því sambandi að efla Landshelgisgæzluna og lögregluna.
Meðal þess sem nefnt hefur verið er stofnun íslenzks varnarliðs sem er viðkvæmt umræðuefni en engu að síður sjálfsagt og eðlilegt að ræða eins og aðrar hliðar varnarmála þjóðarinnar. Ætla má að margir teldu í það minnsta íslenzkt varnarlið, sem hefði það meginhlutverk að styrkja varnir landsins en gæti einnig nýzt vel til að mynda í náttúruhamförum eins og velþekkt er í nágrannalöndum okkar, æskilegra en erlent.
Hins vegar er ljóst að slíkt varnarlið gæti ekki varið Ísland nema tímabundið kæmi til allsherjarárásar á það af miklu fjölmennara ríki. Á hinn bóginn gæti það hæglega skipt sköpum að geta haldið aftur af árásarher þar til vinveittar þjóðir gætu komið til aðstoðar og hindrað þannig að landið yrði hernumið. Mun erfiðara er eðli málsins samkvæmt að frelsa hernumið land en að koma því til hjálpar áður en til þess kemur.
Flestir herir í Evrópu og víðar um heiminn hafa fyrst og fremst sama tilgang ef til átaka kemur. Þar á meðal og ekki sízt herir hinna Norðurlandanna. Þess utan er tilgangurinn að fæla önnur ríki frá því að efna til ófriðar. Leiðin til þess að tryggja frið er enda ekki að leggja af landvarnir. Ekki frekar en að glæpum verði eytt með því að leggja niður lögregluna. Standa þarf vörð um friðinn rétt eins og lög og reglu.
Hjörtur J. Guðmundsson
sagnfræðingur og alþjóðastjórnmálafræðingur
(Greinin birtist áður í Morgunblaðinu 12. ágúst 2024)
(Ljósmynd: Bandarískar orrustuþotur af gerðinni F-16. Eigandi: Varnarmálaráðuneyti Bandaríkjanna)
Tengt efni:
„Kaninn kæmi hvort sem er til bjargar“
Vantreysta ESB í varnarmálum
„Við værum í vandræðum án Bandaríkjanna“
Hlutleysi veitir enga vörn
Hornsteinn NATO á norðurslóðum